15. febrúar 2012

Stressfaktor

Iss, ég hef ekki hugmynd um það hvernig faktor er skilgreindur eða hvað það þýðir. Mér fannst þetta bara flott orð í fyrirsögn, samsett úr tökuorðinu stress (ég ætti auðvitað að nota streita) og faktor, sem ég reikna með að sé líka tökuorð.

En ég er stressuð og þarf að skera kaffibollana mína niður í 1 á dag svo hendurnar á mér hætti að titra svona. Svo er blóðþrýstingurinn ábyggilega alltof hár fyrir vikið en ég get valið að horfa framhjá því þegar ég á ekki blóðþrýstingsmæli.
Ég á reyndar að mæta í lyfjagjöf á mánudaginn og þá fæ ég blóðþrýstingsmælingu (ef það gleymist ekki), síðast þegar ég mætti voru efri mörkin undir hundrað, núna ... Ja, ætli það borgi sig nokkuð að spá í það.

Ég þarf að velta Ragnari loðbrók fyrir mér og öllum þeim heimildum sem hann kemur fyrir í. Ég þarf að tileinka mér fróðleik úr 1000 blaðsíðum af íslenskri bókmenntasögu á viku (ég veit, ég átti að læra jafnóðum en flensan fór alveg með þetta, já og smá leikaraskapur), svo er próf, (anda djúpt)
Beygingar og orðmyndunarfræði er allra skemmtilegasta fag en ég þarf að vinna 30% verkefni samhliða því að læra fyrir próf og svo er það blessaður karlinn hann Ragnar sem ég þarf að skrifa um 4000 þúsund orð.
Allt þrælskemmtilegt efni en... æ, mig langar í heilann sem ég hafði einu sinni og brot af þeirri orku sem ég hafði fyrir 10 árum.

Væl?
Jamm, sjálfsvorunn og volæði.
Til að lækna svoleiðs er víst gott að fara á útsölur, ég er að hugsa um að skella mér á eina hjá Árnastofnun



snara.is
faktor

sögulegt
verslunarstjóri (við danska selstöðuverslun)
2
óformlegt
áhrifaþáttur, mikilvægt atriði
3
stærðfræði
þáttur
Já, ég var ekki langt frá því.

3 ummæli:

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Eru ekki summary kaflar í bókmenntasögunni? (Lánaði stráknum mín eintök og man ekki hvernig bókin var). Ragnars saga er raunar auðlesin og hraðlesin, þetta er mest ævintýri (mér voru sagðar þessar sögur í bernsku, t.d. um Kráku og Þóru Borgarhjört).

Svo er ábyggilega til wikipediasíða um Ragnar loðbrók ;)

Gangi þér vel ...

Hafrún sagði...

Hehe, ég sé fyrir mér athugasemdirnar hjá Ármanni J. ef ég nota Wikipedia sem heimildi :D
Annars heitir verkefnið „Ragnar loðbrók í ýmsum heimildum“ og Wikipedia er að sjálfsögðu heimild svo hugmyndin er bara nokkuð góð :)

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Sko, maður flettir upp í Wikipediu og gefur svo upp heimildirnar sem Wikipedia vísar í ... þetta gera framhaldsskólanemar ;)

Wikipedia er fín í sumu, t.d. efni sem varðar læknisfræði og líffræði. Íslenskum síðum er hins vegar mismunandi treystandi ekki hvað síst vegna þess að á Menntavísindasviði (gamla Kennó) eru nemendur látnir vinna sem verkefni í upplýsingatækni (tölvunotkun) að skrifa síður á Wikipediu, virðist stundum sem þeir hafi litla þekkingu á efninu og þetta er fáránleg æfing í að kenna fólki að nota tölvur! (En gætu verið fín verkefni undir stjórn sagnfræðinga, íslenskufræðinga o.s.fr., þ.e. fólks sem hefur einhverja menntun í því sem nemendurnir skrifa um.)

En þú veist væntanlega allt um Ragnar karlinn núna :)