10. febrúar 2012

Hamingja í kílóatali

Ég ætlaði að sleppa þusinu á veraldarvefnum í kvöld, má ekki vera að því. Svo kíkti ég aðeins á mbl.is til að sjá hvað væri helst í fréttum og blóðþrýstingurinn rauk svo hratt upp að ég verð að fá útrás.

Fjórða mest lesna "fréttin"  í þessum blessuðum netmiðli að kvöld 9. febrúar 2012 hefur fyrirsögnina 13 kíló fokin og aldrei verið hamingjusamari.

Þá vitum við það, það er hægt að lifa í rúm 50 ár og öðlast aldrei meiri hamingju en felst í því að missa 13 kíló. Ekki ef við tökum fyrirsögnina trúanlega.

 Ég eiginlega urra við lestur svona fyrirsagna, þær gefa svo sterklega til kynna að rétt kílóatala og rétt útlit skipti öllu máli, veiti manni ómælda hamingju.  Og ég  velti því fyrir mér hvort vesalings  konan sem talað er um (og við) eigi ekki fjölskyldu, ekki börn eða neinn sem henni þyki vænt um. Hafi aldrei upplifað hamingju á þann hátt sem svo mörg okkar gera þegar við eigum góðar stundir með okkar nánustu.

Sem betur fer hafa mínar hamingjustundir verið tengdar samvistum við mína nánustu, ekki síst börnin mín en ekki vigtinni minni. Kannski er því öfugt farið með vigtina.

Svo þegar maður les þennan blessaðan Smartlandspistil almennilega (ég les yfirleitt ekki Smartland, ég held að það fari illa með heilann og ég þarf á mínum að halda) kemur í ljós að auðvitað var vesalings konan ekki að segja að hamingjan fælist í þessum kílóum, hún fór að hreyfa sig, borða hollan mat, hætti að drekka áfengi (kannski var hún ölsæl eins og heilagur Þorlákur), og hverjum liður ekki betur eftir að hafa komið sér í gott líkamlegt form og hent óhollustu út af matseðlinum. Hamingjutalið er í raun aldrei tengt við kílóamissinn í sjálfu vitalinu en hjá Smartland vita menn greinilega hvernig á að búa til smellfyrirsagnir.

Engin ummæli: