4. janúar 2012

Ekkert sérstakt

Dagarnir æða áfram en meira þó í mínum huga en á dagatalinu. Ég fullyrti í gær að það væri langt liðið á janúar en var snarlega leiðrétt með það, það væri nú bara 3. janúar enn þá. Ég lýg engu með það að mér fannst vera liðin meira en vika af árinu. Sjálfsagt hef ég afkastað svona miklu þessa dagana að ég held að mánuðurinn sé hálfnaður.

Ég fór í ræktina í dag, sem var ágætt, í kaffispjalli eftir tímann frétti ég af heilkenni gleymsku og minnisleysis sem kaffifélagarnir fullyrtu að hrjáði stóran hluta þeirra sem fara í gegnum krabbameinsmeðferð. Ég fékk áfall en jafnaði mig aðeins þegar þær sögðu að þetta gengi til baka, a.m.k. að einhverju leyti.

Þetta skýrir ástandið á heilanum í mér í haust þegar ég var að reyna að læra ýmis hugtök í bókmenntafræðinni. Oft var ég alvarlega að velta því fyrir mér að gefast upp því ég væri greinilega ekki fær um það lengur að læra ný orð, hugtök og hugmyndir. Það er alveg spauglaust að muna ekki í dag það sem ég fletti upp í gær og núna þegar ég lít yfir kennsluáætlanir og lesefnislista vorannarinnar þarf ég að einbeita mér að því að anda djúpt að og hægt frá.

Ég vona bara að þetta gangi til baka hratt og vel á vorönninni og ég geti hætt að fletta sakleysislegustu orðum sem ég veit, nei á að vita hvernig eru skrifuð, í orðabók.

Ég er búin að sanka að mér helling af bókum með því sem á að lesa í Miðaldabókmenntakúrsinum, einni af fimm bókum í Íslenskri bókmenntasögu  (bókajólagjöfin) og byrjuð að lesa (og hlusta) ekki veitir af. Svo þarf ég að vinna helling þangað til skólinn byrjar svo ég losni við sífellt samviskubit yfir að sinna vinnunni ekki nóg.

Gaman að þessu og svo er yndislega heiðskýrt og stjörnubjart kvöld en ég horfði frekar á sjónvarp en fara út. Þetta er náttúrulega ekki í lagi.

Engin ummæli: