Ég er í náðinni þessa dagana, í rigningu og frosti, dagsskímu og skammdegismyrkrinu fæ ég að njóta nærveru höfðingjans á heimilinu. Borðshornið mitt rúmar ekki lengur vinnupappíra eða námsbækur, nú þarf ég að hafa á því teppi eða handklæði til að það fari nógu vel um kattarskrípið sem veit að ég er hér til að þjóna. Þjóna honum.
Sem betur fer hefur verið þokkalega þurrt veður undanfarið en í gær rigndi og kvikindið kom inn rennandi blautt. Hann gekk sína venjulegu leið, upp í sófa, yfir á borð og staðnæmdist á lyklaborðinu fyrir framan mig. Þar tjáði hann sig með mjálmmurri og beð eftir að ég næði í handklæði til að þurka honum. Þegar það gerðist ekki nógu fjótt spásseraði hann um borðið eins og leikari í Ævintýri á gönguför og danskar námsbækur eru nú skreyttar kattarförum.
Í dag heldur hann sig við sama heygarðshornið (borðshornið) og hoppaði upp á borð um leið og ég ýtti honum niður úr stólnum mínum. Ég ætlaði að sína fádæma hörku í samskiptum og láta hann eiga sig á sínu horni í stað þess að klappa honum og þyrla kattarhárum umhverfis tölvubúnaðinn, (skepnan ætlar ekki að hætta að fara úr hárum). Þessi harka mín fann sér ekki lengur framrás þegar skömmin tölti til baka, þessar þrjár kattarlengdir sem borðið er, þar stoppaði hann við múrsarhendina sem var upptekin við vinnu og gaf mér hlýjan tungukoss á handarbakið. Svona vinarhót frá varginum og hörkutólinu bræða hörðustu kaldlyndispúka og skýrir hvers vegna ég læt hann komast upp með borðvistina. Svo er hann hálf munaðarlaus þetta grey meðan Flubbinni sinnir endalaustum kóræfingum og tónleikum. Ég get bara ekki verið vond við hann, ekki viljandi amk.
En áfram með dönskuæfingar og þá aðallega hlustun.
Konan með danska barnabarnið getur svo líka æft sig í dönskunni með að taka undir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli