15. október 2010

Óregluminni

Það er vefjagigtinni að þakka að ég skil núna hvað fólk er að tala um þegar það segist ekkert muna af því sem það er að læra. Þá festist engin vitneskja þannig í kollinum á manni að það sé hægt að kalla hana fram á skipulegan hátt. Auðvitað er þetta samt allt þarna innan við höfðukúpuna, það vantar bara tæki til að kalla það fram og raða upp í skipulegt rökrétt samhengi. Hlutirnir poppa upp eftir eigin vilja ekki mínum. Ég hefði svo sem viljað sleppa við þennan skilning, athyglisbrestur gagnast mér ekki að öðru leyti en þessu.

Einbeitingarskortur, athyglisbrestur og skiplagsleysi gerir það þó að verkum að ég þarf að skipuleggja mig, ég þarf að setja hlutina þar sem ég finn þá aftur, það á ekki síst við um gögnin mín í tölvunni og þar er möppukerfið þrælskipulagt, annar staðar skipulegg ég og gleymi svo skipulaginu aftur. Ég er líka gjörn á að finna hitt og þetta gagnlegt dót á netinu eins og Zotero sem á að auðvelda fólki að halda utan um vefsíður og netgögn sem það vill finna aftur og ákvað að nota það. Ég rakst nú samt á síðu áðan sem ég setti í bókamerki og steingleymdi zotero kerfinu mínu eins og stundum áður. Ég þarf að læra betur á það, kannski ég skrifi minna og læri meira einhvern daginn.

Svo einn daginn þegar ég var að leita í bókamerkja valmyndinni sá ég að þetta gegni ekki lengur og setti þær síður sem ég var að nota inn á bloggsíðuna, ég rata best um hana. Ég er að hugsa um að halda því áfram og setja inn Dönskukrækjur og Íslenskukrækjur til viðbótar við Þýsku og Ensku. Fljótlega verður síðan orðin svo full af krækjum að ég hef ekki pláss til að skrifa á hana.

Markmiðið með þessum skrifum? Ekkert mér leiðist bara, kötturinn sefur og nennir ekki að tala við mig. Gott að hafa það skjalfest hér ef ég skyldi þurfa að rifja upp 15.10.2010 einhverntíma.
Farin að vinna!

1 ummæli:

elina sagði...

Mér vinnst ekki tími til að leiðast nema einna helst í vinnunni....

Sé þig bráðum