16. október 2010

Í löngu máli, (bíómyndaplaggöt)

Einn morguninn meðan ég sat í makindum yfir Fréttablaðinu og tuggði í takt við fyrirsagnirnar, staldraði ég við kosninguna um bestu íslensku myndina. Ég hef svo sem enga sérstaka skoðun á því hvort Sódóma Reykjavík er eitthvað betri en Börn náttúrunar eða Englar alheimsins, þetta eru allt góðar myndir hver á sinn hátt. Til að dæma um það hver er best þyrfti ég að setjast niður yfir þeim öllum og spá i handrit, myndatöku, klippingu, hljóð og leik og ég hef ekki horft á neitt af þessum myndum með því hugarfari. Ég horfi bara og nú datt ég niður í það að horfa á myndirnar sem fylgdu fréttinni. Það sló mig nefnilega af miklu afli í höfuðið hvað plaggatið með Börnum náttúrunnar er forljótt! Eins og þetta er nú falleg kvikmynd. 

Parið á myndinni er umvafið gulgrænum bjarma eins og þau standi neðan við geimskip í lendingu, já eða flugtaki.  Allar þessar smámyndir í kring þjóna engum tilgangi öðrum en þeim að setja enn meiri ringlulreið í myndflötinn en búið er að gera með þessum símynstruðu bláu flækjum. Svo er litavalið á textabakgrunninum  já, mér orða vant aldrei þessu vant.!

Kannski sér einhver sem er betur myndlistamenntaður en ég góða myndbyggingu í þessu kaðraki, ég efast samt um það. Er þó opin fyrir ábendingum. 

Nú var auðvitað boltinn farinn að rúlla og ég hélt áfram að stúdera auglýsingaplaggötin með bestu í slensku kvikmyndunum.

Sódóma var í fyrsta sæti og ég set líka plaggatið í fyrsta sæti. Flottir litir, skuggalegur bakgrunnur sem gefur til kynna ógnir og átök, kannski hrollvekju En svo sprettur páfagaukurinn út úr næturógninni og eyðileggur allan alvarleikann.
Hugsa sér að ég skuli ekki hafa séð þessa mynd fyrr en mörgum árum eftir að hún var gerð, ég hélt víst að þetta væri háalvarleg mynd um undiheima Reykjavíkur.  
Englar alheimsins voru í öðru sæti og myndin í Fréttablaðinu er allt önnur en sú sem ég er vön að sá utan i tengslum við þessa kvikmynd, þetta er greinilega útrásarútgáfan og mér líkar hún illa.
Ég sé ekki tenginguna við titilinn, englar hvað? Geðsjúkdómar? Jú þarna er mynd af einmanna manni  að vaða í drungalegu veðri. Litirnir eru svo sem ekki mikið að trufla mig en myndbyggingin gerir það, skálínan ofan við höfuðið á manninum sker myndina of mikið, hún eiginlega sker af honum hvirfilinn og hún fær hvergi mótvægi.  Þetta er ekki plaggat sem vekti áhuga minn á innihaldinu. Einhver rök hljóta samt að vera fyrir þessu.  Ég get auðvitað ekki stillt mig um að setja gamla plaggatið hér til samanburðar. Mér finnst það hæfa myndinni betur, þetta er hlý, húmorísk mynd um dauðans alvöru og það túlkar tvo af þessum þáttum ágættlega meðan það nýrra er mjög einhliða.   

Nú finnst mér ekki annað við hæfi en að halda áfram með bíomyndaplaggötin úr þessari könnun og í þriðja sæti var Með allt á hreinu. Ég er fyllilega sátt við það plaggat,  á því er skemmtileg lítil myndasaga sem er gaman að skoða. Hún hæfir innihaldinu. 
 
Mýrin lenti svo í fimmta sæti, næst á eftir Börnum náttúrunnar. Þarna er fínt plaggat, hæfir efninu ágættilega, alvarlegt og þungbúið eins og Erlendur aðalsögupersóna. Það er bara eitt sem truflar mig við þessa uppstillingu og það er hvað hún er fyrirsjáanleg. Mér finnst ég hafa séð hana oft í mismunandi tilbrigðum og ég þarf ekki að draga mörg dvd hulstur úr hillunum til að sjá ýmislegt sem mynnir á hana. The Mummy returns, Bravehert og Föruneyti hringsins eru allar með svipaðri uppstillingu. Það er meiri kuldablámi á þessari enda gerist hún á ísa köldu landi.  

Stella í orlofi lendir í 6 sæti og þar er plaggat sem sýnir ágættlega efnistökin í myndinni. „Slysagrín “ og detta á „bananahýðihúmor“ minnir mig, vera inntakið í henni. Það var mikið búið að horfa á þessa mynd meðan krakkarnir voru innan við fermingu og hún á fína spretti..Mér sýnist bannerinn neðst á myndinni vera það skemmtilegasta við plaggatið og svo er uppstillingin auðvitað sú sama og á Mýrinni. Ég býst við að hún sé notuð af því það virki, en ekki hvað!

Myndirnar sem komu í sæti 7-10 eru svo  Bjarnfreðarson, Nýtt líf, Djöflaeyjan og Mamma Gógó

Ég gúgglaði aðeins Djöflaeyjuna og fann tvö plaggöt til viðbótar við þessu, bæði með íslenskri útgáfu af  titlinum annað fannst mér klént en hitt ágætt. Þetta sem fylgdi fréttinni finnst mér persónulega best. Litirnir og uppstillingin eru meira grípandi en í hinum tveimur.  

Bjarnfreðarson hef ég ekki séð en ég býst við að plaggatið endurspegli innihaldið ágættlega, svona miðað við þau brot að þá umfjöllun sem ég hef séð um myndina. Samt finnst mér ég hafa séð þetta áður ég man bara ekki hvar. Ef ég nennti að leita á netinu myndi ég gúggla Lenín! 

Nýtt líf er með þessa klassísku uppsetningu,  ekki slæmt plaggat og það sem er með Mömmu Gógó er stílhreint og segir held ég það sem þarf um myndina.  Sem ég reyndar hef ekki séð frekar en Bjarnfreðarson, því þarf ég að bæta úr, þessu með Gógó sko mér er slétt sama þó ég sjái hina ekki. 

Auglýsing um frumsýningu á Brimi var svo í þessu sama blaði en ég ætla að sleppa vangaveltum um hana í bili. Ég sá Brim í bíó í gær og eftir að hafa séð myndina skoða ég plaggatið veggspjaldið með öðruvísi hugarfari en áður. 
Á Wikipediu er notað orðið veggspjald í stað orðskrípisins sem ég nota hér, ég ætla þó ekki að leggja í þá vinnu að lesa yfir og breyta öllum plaggötunum í veggspjöld þó mér hugnist spjaldaorðið betur. Annað sem ég græddi á netflakki meðan ég var að stúdera veggspjöld var komast að því að sennilega  eru flestar þessar bíómyndir eru með eina mynd á veggspjöld, aðra á VHS hulstrum (þær gömlu sko) og svo þá þriðju á DVD hulstrunum. Ég ætla ekki að leggast í rannsóknir á þeim, þetta vatt víst nóg upp á sig. 

Þær skoðanir sem hafa komið hér fram eru eingöngu skoðanir bloggritara sem er algjörlega ómenntaður í kvikmynda-, ljósmynda-, gafískum- og myndlistarfræðum, og þær bera að taka sem slíkar. Ég áskil mér þó rétt til að hafa skoðanir á öllu milli himins og jarða, ásamt því sem er ofar himnum og neðan jarðar.




 



Engin ummæli: