21. október 2010

Þurrausin

Ég hlýt að vera búin að tala yfir mig undanfarnar vikur. Til marks um það er að ég finn varla nokkra þörf hjá mér til að láta ljós mitt skína hér. Ég er farin að hafa svo þungar áhyggjur af þessu ástandi að ég bara varð að tjá mig aðeins um það.
Til að bæta fyrir andleysið tók ég nokkrar berjamyndir og hér er ein sem var tekin daginn sem fyrsti snjórinn féll í Kópavoginum. Berjaklasarnir hanga sem fastast á trjánum þó laufið sé fallið og í hvert skipti sem ég fer út að labba, sem er alltof sjaldan, klæjar mig í gikkfingurinn. Stundum er myndavélin með og ég get skotið á eitthvað.
Ég vil labba á Helgafellið í Mos. á laugardaginn og hitt Helgafellið á sunnudaginn. Kannski næ ég því svo á næsta ári að ganga á öll Helgafell landsins. Þau eru ekki nema átta en ég þarf að keyra stóra hringinn til að ná þeim í einni ferð.

2 ummæli: