22. október 2010

Refilstigur minnisleysis

Óyndi er ekki orð sem ég sé oft og þegar það gerðist áðan kveikti það á orðasamhengi einhverstaðar djúpt í minningunni og ég fór að leita að vísu eða ljóði. Ég leitaði í minnisstöðvunum og ég leitaði á netinu. Ég leita enn.
Leitin var ekki með öllu árangurslaus, ég fann til dæmis í kommentunum hér að Harpa leitaði að þessu sama fyrir þremur árum (vegir internetsins eru órannsakanlegir) en það dugði mér ekki til að muna.
Ég er þó komin svo langt að ég man að þetta er úr seinniparti vísu sem endar svona:
„óyndi það eykur mér er ég sé þig gráta“
Í dag kem ég til með að sýna þráhyggju einkenni þangað til ég er búin að rifja upp fyrri hlutann. Þegar ég verð búin að fá nóg af þráhyggjunni hringi ég í mömmu, hennar langtíma minni er miklu betra en mitt þó hún sé 18 árum eldri.

Seinna sama dag
Og þegar maður hvílir sig á þráhyggjunni og fer að hugsa um Excel, sjóðsstreymi og uppsetningar greiðsluáætlana opnast stundum dyr í minningakastalanum.

Láttu ekki illa liggja á þér
lundu berðu káta.
Óyndi það eykur mér
er ég sé þig gráta.

(elina, er linkurinn skiljanlegri svona?)



2 ummæli:

elina sagði...

hvenær urðu Harpa og Málbeinið eitt ?

elina sagði...

jamm.... Þakka þér fyrir að auðvelda mér að skilja !!!