24. október 2010

Um viðhorf

Ég horfið á heimildarmyndina um forsetakjörið 1980 undraði mig á að ekki skuli vera nema 30 ár síðan þau viðhorf og hugmyndir sem endurspegluðust í viðtalinu við forsetaframbjóðendurnar voru viðhorf meirihluta þjóðarinnar. Það er að segja viðtalinu við karlpeninginn sem taldi engan geta sinnt forsetaembættinu svo vel færi á þess að hafa góða húsfreyju sér hlið! 
Mér finnst að svona sjónvarpsefni ætti að vera skylduáhorf hjá öllum sem ekki muna hvernig var að lifa í þjóðfélagi sem taldi konuna eiga að vera stoð og styttu eiginmannsins og ekkert eða lítið umfram það. 

Ég ætla að taka mér frí frá námi og vinnu á morgun og halda upp á daginn. Þennan dag 1975 var ég að vinna í sláturhúsi í örlitlu sjávarþorpi sem taldi 300 hræður, bjó reyndar í ennþá minni sveitahreppi sem taldi ennþá færri hræður, og ég tók mér frí og lét fara vel um mig heima. Ég hef sjálfsagt legið uppi í rúmi og lesið bók ef ég þekki mig rétt, ég man það ekki lengur. Ef þarna hefði verið einhver samkoma eða fundur í tilefni jafnréttiskrafna kvennabaráttunnar hefði ég örugglega mætt þar, það var bara ekkert um að vera svo ég bara slæptist. Ég tók samt nokkurn  þátt og er stolt af því.
Ég er líka stolt af Vigdísi Finnbogadóttur, fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforseta heimsins (eftir því sem ég best veit) en ég get ómögulega munað eftir að hafa kosið hana. Ekki það að ég efist nokkuð um að hafa kosið hana ég veit bara að það var svo sjálfsagt að ég lagði það ekki á minnið. Mér telst til að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem ég kaus, nema það hafi verið sveitarstjórnarkosningar árið áður. Það er eins og mig minni það. 

Engin ummæli: