26. október 2010

Spenna

Vitneskjan um að maður er að horfa á 2. þátt af 6. í glæpaþáttaseríu getur lækkað spennuna í almestu háskaatriðunum um mörg volt.
Ég veit að söguhetjan á eftir að upplýsa sakamálin næstu fjóra þætti og sú vitneskja kallar bara fram örlitla kippi þegar glæpamaðurinn spilar rússneska rúllettu þar sem heilinn í aðalsöughetjunni er lagður undir.
Suðandi húsafluga er algerlega ómeðvituð um spennuna og þær harðneskjulegu hugsanir sem bærast i kollinum á mér þegar hun tekur glæsilega bakfallslykkju við hægra eyrað á mér. Drepa kvikindið, drepa, drepa,  hugsa ég. Hún les ekki hugsanir og sest á púðann sem liggur á hnjánum á mér. Hún virðist líka kæra sig kollótta um árstímann. „Flugur eiga ekki að vera á ferðinni í lok október, farðu að drífa þig i fluguhimnaríki“ segi ég en hún hlustar ekki, nuddar bara saman einu pari af fótum og leggur af stað í langferð eftir ljósum púðanum.
Ég óska þess að kettir heimilisins sýndu nú einu sinni af sér nokkurn kattdóm og dug og dræpu kvikindið en þeir sofa vært. Trúlega halda þeir að þeirra sé vetrardvalinn, ekki flugunnar.
Flugan æðir í hringi á púðanum, upp og niður hæðir og hóla sem hlykkjast fram og til baka á honum eins og sandöldur í eyðimörkinni. „Bráðum kemur sandormurinn og étur þig“ segi ég við fluguna og skyndilega verður henni ekki um sel svo hún dembir sér í lóðrétt flugtak og sveiflar sér síðan yfir á sjónvarpsskjáinn. Hún hefur ekki áhuga á að leika í endurgerð af Dune. Og ég sem ætlaði að fara að semja við kettina um að leika á móti henni.
Í sjónvarpinu er nú veriða ð endursýna breskan sakamálaþátt 5 af 5 og í lokin losnar sá sem var dæmdur saklaus úr fangelsinu en flugan var ekki spenntari en það að hún virðist hafa dái úr leiðindum.
Blessuð sé minning hennar.

(Ég þoli ekki leka penna) 

Engin ummæli: