9. október 2010

Lotan búin í bili

Ég kláraði tvö próf og tveggja daga staðbundna lotu í skólnanum og er núna komin í róleg heit í náminu. Verð bara í einu fagi í einu, að vísu verð ég þá fram í maí í stað þess að klára í febrúar.
Ég var eitthvað farin að velta því fyrir mér að dunda bara í rólegu námi og léttri vinnu eftir áramótin. Ég sá fyrir mér að ég gæti klárað allar afstemmingar og ársuppgjörsvinnu strax í febrúar eða mars í staðin fyrir að taka ofurtörn i því í september og skila svo of seint eins og venjulega. Svo sá ég að HÍ ætlar að taka inn nýnema eftir áramótin og ég var víst  búin að lofa að láta reyna á undanþáguumsókn ef það yrði gert. Samt er ég svona beggja blands, fara, vera, koma, fara, út, suður, norður, niður?
Ég sá svo mína sæng upp reidda þegar dóttir mín hnussaði „ætlarðu bara að vera í einu fagi, það er ekki neitt neitt, auðvitað sækirðu um“ Ég benti henni kurteislega á að ég gæti bara dundað í einu fagi, smá vinnu og sinnt svo eldhússtörfum af eldimóð meðfram því. Hún var ekki að kaupa það, sjálfsagt af því að ég er ekki nógu sannfærandi sölumaður.

Ég bíð þess vegna eftir upplýsingum um hvaða svið og á hvaða námskeið á náðarsamlegast að bjóða nýnemum upp á.
Þangað til er það bara vinna og svolítið meiri vinna með göngutúrum í hléum. Ekki halda samt að ég sé hérumbil sest í helgan stein, ég ætla að taka eitt námskið í Endurmenntun Háskóla Ísland til að lífið verði nú ekki of auðvelt fram að jólum.

2 ummæli:

elina sagði...

Nú? Hvaða námskeið ?

Hafrún sagði...

Skrif- eitthvað.