10. október 2010

10.10.2010

Í dag er 10.10.´10, það er flott dagsetning og af þvi tilefni var ég með heimspekilegar hugleiðingar í dag en ég er búin að gleyma þeim. Ég var líka með óheimspekilegar hugleiðingar í dag og þeim er ég ekki búin að gleyma.
Rétt fyrir helgina heyrði ég á skotspónum að vinkona mín ætlaði að labba á Lágafellið í dag, hún er að æfa snúinn, bólginn og bláan ökklann í brekkugöngu. Ég hringdi í hana og spurði hvenær hún ætlaði að labba, hún sagði mér það og ég sagði „Ég kem með“. Engin óþörf kurteisi á þessum bæ, ekkert svona „má ég koma með“, og ég fór með.

Þetta rölt eftir endilöngu Lágafellinu sem er meira svona bæjarhóllinn þeira Mosfellinga er hæfilegt fyrir mig eins og ástandið er orðið. Mér finnst eiginlega tímabært að fara að breyta þessu ástandi og ég ætla mér að hafa tíma til þess á næstu vikum.
Þann 10.10.´11 er ég að hugsa um að labba þarna upp aftur og taka aðra mynd. Ég sé þá hvort eitthvað hefur breyst og hvort sama fólkið verður á henni.
Myndin sem var tekin í dag er m.a. heimildarmynd um veðrið í dag, það var veður fyrir stuttermaboli og sveppatínslu.

Haustveðrið er búið að vera sérlega ljúft en ég hef ekki haft tíma til að fara mikið með myndavélina undanfarið. Ég rötli samt einn hring í hverfinu einhvern sólskinsmorguninn í vikunni og myndað spegilsléttann Kópavoginn, hvít ber innan um logandi haustlitina og eitthvað svona smávægilegt.

Engin ummæli: