16. september 2010

Útlendingur

Mér líður eins og útlending í eigin landi þessa dagana. Það er sjálfskaparvíti ég veit það, ég valdi að hafa glymjandi þýsku í eyrunum alla daga meðan ég sit við vinnuna. Þýskan er að vísu brotin upp annað slagið af lögum með enskum texta, aldrei íslenskum.
Ég hugsa um það reglulega þegar ég hætti að hugsa um vinnuna og þýskan fangar athygli mína, jamm ég hef glymjandi hávaða í eyrunum án þess að hlusta, að mikið væri nú gaman að vita hvað fólk er að segja.
Ég er reyndar að ná nokkuri æfingu í að skilja orð eins og einsundsibenzig, dreiundzweizig og hundretfunfundvierzig. Það er þó nokkur árangur!

Enn hefur engin boðið sig fram til að sjá um heimilishaldið og nú er ég að hugsa um að hella upp á róandi te til að vega á móti þýskunni og fara svo
að rumpa þessu rusli frá.

Og svona til að bregðast ekki þessum tveimur, nei þremur, lesendum mínum er hér fræðslumynd af ullarsveppum eða ullarblekli eins og hann heitir í sveppabókinni.
Þessir þarna eru sennilega vel ætir en ég hafði ekki lyst á að tína þá þar sem þeir vaxa á óspennandi stað. Gallinn við þessa sveppir er hvað þeir vaxa mikið við vegi þar sem mengunin frá bílum er mikil. Svo var um þessa.
Ullarblekilinn á að tína meðan hann er kornungur og hólklaga með hvítum fönum sem enn eru lokaðar, eins og stendur í fræðslukverinu mínu. Geymist ekki, hann verður að bleki fljótlega! Ætli það sé hægt að nota það blek?
Gallinn við hann er að hann er líkur slöttblekli (coprinus atramenturius) sem vex á svipuðum slóðum. Slöttblekillinn er þó allur minni, vex ekki í eins stórum breiðum og þegar ég les lýsinguna betur held ég að þeir séu ekkert sláandi líkir. Slöttulblekilinn er með slétta gljáandi áferð á hattinum en ullarblekillinn er þakinn hvítum og brúnleitum bómullarkendum flygsum.
Slöttulblekil á ekki að borða samfara áfengisneyslu því hann virkar líkt og antabus. Veit einhver hvernig það virkar?
Einu sinni fyrir langa löngu sat ég í herbergi hjá örlaga fyllibyttu sem ræddi um antabus. Hann fullyrti að antabus hefði verið fundið upp fyrst sem meðal við hundaæði, ég hef bara hans orð fyrir því. Hitt hef ég fyrir satt að lyfið virkaði þannig að menn urðu veikir við að drekka ofan í það. Illt skyldi rekið út með illu.
Þessi vesalingur sem var stór og stæðilegur togarasjómaður var orðinn átakanlegt dæmi um hvernig alkóhólisminn fer með fólk. Hann réri fram í gráðið, rorrandi og röflandi með hvita froðu tauma lekandi niður eftir hökunni. Hann féllst á það fyrir rest að fá lækni til að sprauta sig niður.
Ég þekkti hann ekkert, lenti þarna fyrir tilviljun, en mundi nafnið þegar hann lést af slysförum nokkrum árum seinna. Fullorðin þreytt og döpur mamma hans var mér ekki síður minnisstæð.

Merkilegt hvað sveppir geta leitt mann afvega í lífinu, nú leiddu þeir bloggið mitt í ótal óvænta króka.

Engin ummæli: