21. júlí 2010

Ljóð og laust mál

Ég er haldin brennandi bókmenntaáhuga þessa dagana, það er ágætis bland með eplatrjám og sveppum.

Hluti af íslenskuefninu er Guðlausir menn, hugleiðingar um jökulvötn og ást eftir Ingunni Snædal og þó ég geti fengið bókina á bókasafninu langar mig meira til að kaupa hana og eiga. Nú ef ég kaupi þessa, því þá ekki að kaupa hinar tvær í leiðinni. Það er langt síðan ég hef keypt mér ljóðabók.

Önnur skildulesning í íslenskunni er bókin Hlývindi, Ljóð og laust mál eftir Stepahn G. Stephansson og hana tók ég á bókasafninu. Um leið og ég fór að lesa þá bók sannfærðist ég um að hana þurfi ég að eiga svo ég pantaði hana áðan.

Leigjandann eftir Svövu Jakobsdóttur kláraði ég að lesa í gær og meðan á lestrinum stóð bölvaði ég því að hafa selt sögubókina sem ég var að læra í vor. Leigjandinn kallar á að maður muni hvað var að gerast á Íslandi um og eftir miðja 20. öldina og þó ég muni ýmislegt úr söguáfanganum er margt sem ég lagði ekki á minni. Hvernig á svo sem að vera hægt að læra sögu íslands og umheimsins 1789 - 2005 svo gagn sé í á aðeins sex vikum?
Meðan ég var að velta mér upp úr ljóðabókakaupum skoðaði ég vefsíðuna hjá Bjarti og þar þurfti ég að berjast við nærri óviðráðanlega löngun til að skrá mig í Neon, bókaklúbbinn þeirra. Þetta er nú bara ein bók annan hvern mánuð og mig langar til að lesa þær allar! Ég dróg samt skynsemina upp úr hattinum og hugsaði um hvort ég hefði pláss fyrir fleiri bækur, hvort ég ætti þá að henda einhverju og svo framvegis. Bækur er ekki eitthvað sem ég hendi, mér er það næstum lífsins ómögulegt. Samt lét ég nokkrar gamlar og hundleiðinlegar barnabækur fjúka fyrir nokkrum árum en fæ enn sting í hjartastað þegar ég hugsa um það. Líka þó ég muni ekkert hvaða titlar það voru sem fóru í tunnuna. Ég ætla þess vegna að lofa skynseminni að velta þessum bókaklúbbi fyrir sér í einhvern tíma, kannski finnum við tvær einhverja málamiðlun um að prófa áskrift í eitt ár eða svo og henda í staðinn nokkrum bókum sem ég hirti á uppgjafar fornbókasölu fyrir tæpu ári.

Ljóðabækur taka lítið pláss og ég er harðákveðin í að fara í bóksölu stúdenta eftir vinnu í dag eða á morgun. Kannski ég bjóði hjúkrunarfræðinemanum tilvonandi með mér, hún er svo biluð að henni finnst jafn gaman og mér að skoða, klappa og þefa af bókum, bæði gömlum og nýjum.

---------------------------------------------------------------------------------------------
Ég ætlaði alltaf að fara í bíó og sjá Veginn en ég klikkaði á því eins og svo mörgu öðru en á móti kemur að þá á ég það bara eftir, hún er ábyggilega til á DVD. Bókin kom út í Neon og ég er harðákveðin í að lesa þessa bók- einhverntíma.








Engin ummæli: