3. janúar 2010

Gönguferðir ársins


Þessa tvo daga sem af eru á nýju ári hef ég farið með myndavélina með mér í gönguferðir.
Þetta eru auðvitað heilir tveir dagar og það verður að segjast eins og er að það er ekki farið hratt yfiri eða tekið hraustlega á í göngum þegar myndavélin er með.
Á nýjársdag gekk ég frá Reykjanesbrautinni niður að sjó. Þegar ég fór að telja myndirnar sem ég á eftir í tölvunni þegar ég var búin að vingsa úr og henda því sem var ónothæft og illa tekið átti ég sextíu myndir eftir.
Það segir mér að ég eigi eftir að henda helling því þó litirnir eru ómótstæðilegir og ég smelli af í allar áttir til að ná litbrigðum himnins og jarðar þjónar litlum tilgangi að eiga ótal myndir af sama viðfangsefninu teknar með fárra mínútna millibili. Eða fárra metra millibili öllu heldur.

Það leynir sér svo sem ekki á þessum myndum hver er besta ljósmyndafyrirstætan á Reykjanesskaganum að mínu mati og hér er brot af myndunum af honum.
Sú fyrsta sýnir þó litina yfir Esjunni og Reykjavík rétt undir rökku á nýjársdaginn.

Á þessum tíma árs er sólin hæfilega lágt á lofti til að skríða rétt niður fyrir toppinn á Keili. Ég tók ótal myndir af þeim tveim meðan hún fikraði sig neðar og neðar á himnnum og læddist niður á bak við efsta toppinn og svo út undan honum hinumegin.
Ég hef ekki ennþá getað gert það upp við mig hvaða myndum úr þeirri séríu ég held eftir.


Þegar ég kom svo aftur upp í bíl eftir gönguna niður að Lónakoti var sólin sest og litadýrðin í vesturátt svo stórfengleg að ég þurfti auðvitað enn að smella af nokkrum myndum og auðvitað af Keili sjálfum enda fátt annað sem rís yfir hraunið á þessum slóðum.



Og þegar ég gekk hringinn minn í vesturbæ Kópavogs í gær var þetta sama viðfangsefni að trufla mig en nú með krepputáknin okkar í forgrunn.



Ég velti því fyrir mér hvort ég þurfi ekki að fá mér örstuttan göngutúr með myndavélina í dag og æfa mig í að taka bara eina, í mesta lagi tvær myndir og vanda bara valið.
Ég hefði þurft að skreppa vestur á Gróttu og taka eina eða tvær myndir þar við tækifæri en þú þarf ég aðallega að vinna.

Engin ummæli: