26. ágúst 2009

Morgunverk

Klukkan í kollinum á mér virðist vera komin á það ról að hringja klukkan sex á morgnana. Sex er ekki slæm tala og í morgun vaknaði ég klukkan sex eftir sex tíma svefn.
Það er einn galli á þessari stillingu á kollklukkunni og það er að gigtarlyfin gera ekki ráð fyrir svona stuttum svefni. Hangs fram eftir kvöldi langt frá ,,apótekinu" og miðnæturgauf er þess vegna mjög óhagstætt.

Morgungangan var góð og þó vetrarkvíðinn sé farinn að læðast um skartar síðsumarið sínu fegursta. Dögunin kom inn yfir landið í ljósgráum, bláum og gulum tónum með keim af stolnum rifsberjum.
Í dag verður langur vinnudagur í vinnu og sjálfboðavinnu svo útsaumur, lopapeysur og annað skemmtilegt situr á hakanum.
Mig langar á námskeið í silfurkveikingu, silfurleir, eldsmíði, víravirki, tálgun og steinaskarti. Svo á ég eftir að sinna ullarvinnslunni aftur.
Breyting til batnaðar á heilsufarinu vekur vonir um að geta sinnt einhverju af þessu í vetur en ,,Stundum verða vorin vonum manna hörð" sagð skáldið og ég er svolítið að snúa þessu upp á komandi vetrarmánuði.

Engin ummæli: