Í gær eyddi ég hluta úr deginum við að skríða á fjórum fótum í moldarflagi í Breiðholtinu. Vesturbæingurinn hafð fengið þá flugu i höfuðið að rækta grænmeti og kartöflur í sumar. Sem betur fer var hún ekki með hugmyndir um meira en heimilisræktun svo þetta tók ekki marga daga. Ég var nýbúin að fá minn fjallabíl úr viðgerð og átti að sjá um keyrslu þar sem hennar bíll er að aðstða við ferðabókaskrif um Ísland. Vonandi ætlar höfundurinn samt ekki að skoða Gæsavatnaleið á Yarisnum.
Það kom nú samt í ljós, kannski ekki öllum að óvörum en allavega gegn öllum vonum að bíllinn minn sprengdi öryggið um leið og honum var startað í gang og til að sprengja ekki ótal öryggi í snúningunum við að kaupa forræktað kál og rauðrófur var hann látinn ganga allan daginn fyrir utan ýmsar gróðrastöðvar og við skólagarðana. Sem betur fer hitar hann sig ekki en gekk með sannfærandi díselhljóði allan daginn. Það ergði engann þar sem enginn var í skólagörðunum nema við.
Það eru enn lausir reitir í garðinum sem við vorum að potast í og þó ég treysti mér ekki til að setja niður kál og rauðrófur í heilan garð, enda búin að sá austur á landi, væri ég alveg til í að fá horn hjá Sjúkraliðanum sem auðvitað á að fá sér garð svo ég geti sett niður úr eins og tveimur bökkum af rauðrófum. Ég fékk blá enda af beði til að setja niður steinseljurót í gær.
Hnúðkál, blómkál, hvítkál, rauðkál, fennel, sprotakál og sitthvað fleira væri gaman að borða beint upp úr garði undir haustið. Fjögura hólfa bakki er komin niður í 300 krónur í Storð.
Keyrði svo Vesturbæinginn heim löngu eftir kvöldmat og sá glitta í Gróttuvita í sólarlaginu. Mig langaði afar mikið í fótabað við hákarlshjallinn en þegar ég mundi að ég gat ekki drepið á bílnum hristi ég þá löngun af mér og hélt heim á leið.
Heilsa hefur verið þokkaleg þessa vikuna svo kannski, en bara kannski hef ég farið of geyst. Óvenjulöng ganga á föstudagskvöldið og garðapot í gær. Þess ber að gæta að það sem mér finnst óvenjulangt er smá mál í annara augum. En fyrir mig var þetta afrek ársins. Vonandi verða þau fleiri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli