
Af einhverjum frekar langsóttum ástæðum koma orðin landlukt og tvílandlukt upp í hugann þegar ég lendi á Héraði. Ólíkt Héraði hobbitanna á þetta Hérað samt sem áður land að sjó, það liggur að minnsta kosti að Héraðsflóanum. Hann er bara svo víðsfjarri öllum skilningarvitum þegar maður stígur út úr fluvélinni á Egilstaðaflugvelli á sólríkum, lognkyrrum vordegi þegar ilminn af nýdreifðum húsdýraáburði leggur fyrir vitin. Þá anda ég djúpt að mér með velþókn
un og nýt þess að vera sloppin burt þangað sem heiðríkjan ríkir í hvaða veðri sem er. Ég er komin austur á land.Bíllinn er á sínum stað á langtímastæðinu og hefur ekki ryðgað að ráði síðan ég sá hann síðast. Rafmagnsleysinu er bjargað af greiðviknum heimamanni og á fjallvegum falla rykið, forarpyttir og þvottabretti í skuggann af blátærri Öxará sem beljar fram fleytifull af leysingavatni og rífur sum staðar með sér stykki úr snjóhvítum sköflunum sem náðu fyrir stuttu að hylja farveg hennar. Það eru ekki margir dagar síðan snjóaði á heiðum svo allir skaflar eru hreinhvítir.
Bíllinn gengur ekki hægagang, bremsurnar eru fastar eftir langa hvíld og saman skapar þetta veruleg óþægindi á niðurleiðinni. Ég þarf að liðka bremsurnar án þess að drepa á bílnum. Mér tekst að finna jafnvægi í þeirri list áður en ég kem að bröttustu brekkunum og það er ekki fyrr en í U beygjunni við póstkassann sem bíllin drepur á sér aftur.
Ég er mætt í sauðburð en hann er bara ekki byrjaður. Það stendur þó allt til bóta og þangað til pota ég niður kartöflum og undirbý sáningu á kálfræi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli