12. febrúar 2009

Hugrenningatengsl

Ég eldaði mér afgangamat í gær. Ég átti afgang af fiski og af því ég var ein í mat nennti ég ekki að búa til plokkfisk heldur henti slatta af soðinni ýsu í pott með smjörklípu, tveimur krömdum hvítlauksrifum og nokkrum ólífum. Þar sem stóð og andaði að mér hvítlaukslyktinni og hrærði í pottinum hrökk ég mörg ár aftur í tímann. Þar var ég stödd í íbúð í Vesturbænum og að smakka íslensk-spánska saltfiskstöppu með hvítlauk og ólífum. Í þessari sömu íbúð lærði ég líka einhverntíman að borða ólífur þegar okkur var boðið upp á heimatilbúna pizzu með ólífum. Ég man ekki hvað var annað á henni en mér fannst ólífurnar ekki góðar. Ákvað samt að læra að borða þær og það tók ekki langan tíma.
Hjá fjölskyldunni sem bjó í þessari hlýlegu íbúð í grárri gamalli verkamannablokk í Vesturbænum hef ég lært ýmislegt fleira og þó það liggi ekki alltaf efst minnisskúffunni á hugurinn það til að henda í mig minningabrotum á ólíklegustu tímum.
Á morgun ætla ég að fylgja heimilisföðurnum síðasta spölinn og þakka honum með því fyrir ríflega þrjátíu ára góða viðkynningu og trausta vináttu.

Engin ummæli: