28. janúar 2009

Ævintýraheimur

Það er ævintýraheimur í bakgarðinum núna. Trén eru klædd í þykka hvíta kápu og kona sem á myndavél ætti að drífa sig í útgallann og taka mynd af greinum trjánna í birtu götuljósa. En hún ætlar ekki að raska næturrónni sem ríkir í bakgarðinum heldur lofa snjónum að liggja ósnortnum á stéttinni við þvottahússdyrnar.
Undir snjóteppinu, undir grasrótinni ofan í moldinni liggja laukarnir sem lifna við þegar veturinn hörfar og skreyta grafreitinn þar sem mjúkur rauður feldur var lagður til hinstu hvílu.
Þegar vorar og páskaliljurnar og yllirinn mála garðinn í skærari litum en ævintýraandi vetrarins, þá leikur andi hans sér í skuggunum undir grænum greinunum yllisins þar sem hann undi sér best á sólríkum sumardögum.
Sameinast litum og ilmi blómanna, bliki sólargeislanna og ljósbroti í daggardropa.

Þegar ljósgeislar leika við skuggana á grasflötinni gegnum greinar runnans mun ég minnast hans.

Engin ummæli: