Ég ætla að fá lánuð gönguskíði og fara með þau í sumarbústað í Húsafelli um helgina. Ég hef aldrei á ævi minni staðið á skíðum af neinu tagi, jú annars nú er ég að skrökva.
Fyrir langa löngu var ég í skóla langt að heiman og var á heimili þar sem voru til skíði. Ég prófaði að stíga á þessi skíði en gallinn við þau var sá að það voru engir skíðaskór til að festa á þau og þau tolldu illa á gúmístígvélunum. Svo eiginlega prófaði ég aldrei að standa á nema einu skíði í einu.
Ég vona að frændfólkið á Norðfirði hafi geymt skíðin sín því þetta voru forláta tréskíði sem sjást ekki á hverju snjóstrái í dag.
Flubbinn er búin að sýna mér nokkrar skíðaæfingar á eldhúsgólfinu, m.a. hvernig ég á að krossleggja skíðin til að stoppa mig í brekku. Krossa nógu vel og þá flýgur maður örugglega á hausinn, það virkar eins og neyðarstoppið á skíðavélinni í sjúkraþjálfuninni minni.
Einhvern haug af dóti er ég búin að setja í stól og eftir því sem ég man meira stækkar haugurinn. Nú man ég eftir sundbolnum og ætla að bæta honum við. Reyndar var ég minnt á hann því í mínum huga var engin tenging milli sundbols og gönguskíða í frosti og snjó.
Annars er lífið upp og ofan eins og gengur, suma daga er það bara meira ofan.
Góður vinur minn er kominn á sjúkrahús og þaðan mun hann varla eiga afturkvæmt. Það veldur hryggð að hugsa til þeirra.
Dagurinn í gær var meira svona upp þegar ég fór á örtónleikana í Norræna húsinu. Það er svo allt öðruvísi að hlusta á kórsöng þegar kórfélagarnir eru inn á milli áheyrenda eða sitja svo þétt við þá að þeir horfast í augu.
Ég kemst því miður ekki á fleiri viðburði hjá Vox Femine (ég veit að þetta er ekki rétt skrifað) í þessari afmælisviku þeirra en mæli eindregið með þeim.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli