Vefjagigt (e. fibromyalgia syndrome) er langvinnur sjúkdómur eða heilkenni(e. syndrome) sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Helstu einkenni eru langvinnir og útbreiddir verkir frá stoðkerfi, almennur stirðleiki, yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir. Önnur algeng einkenni eru órólegur ristill, ofurnæm þvagblaðra, fótapirringur, kuldanæmi, dauðir fingur (e. Raynaud´s phenomenon), dofi í útlimum, bjúgur, kraftminnkun, úthaldsleysi, minnisleysi, einbeitingarskortur og depurð.
Þessi lýsing er af síðunni vefjagigt.is og sumt af þessu kannast ég við annað ekki.
Á þessum upplýsingavef um vefjagigt stendur líka:
Lærðu að segja nei án þess að fá samviskubitVeikindi eins og vefjagigt sem takmarka getu þína krefjast þess að þú virðir mörk líkama þíns. Því er mikilvægt að læra að segja nei, að hafa kjark til að segja nei, þegar þú veist að það er þér fyrir bestu.
Ég held að stundum sé erfiðast að læra að segja NEI við sjálfan sig og ég held líka að ég þurfi aðeins að læra að leysa þetta eins og hvert annað verkefni. Ég vil auðvitað helst fá lausnina á lyfseðli og geta svo gengið í nokkra daga á Hornströndum eftir mánaðar lyfjaskammt. En það er víst ekki svona auðvelt.
Ég tók eitt skref í rétta átt þegar ég fór til læknis í sumar og bað um tilvísun á sjúkraþjálfun til að fá aðstoð við að koma mér á, ekki beinu brautina heldur á einhverja braut. Svo liðu nærri þrír mánuður í næsta skref, það að panta sér tíma í sjúkraþjálfun.
Eftir slæma daga núna í ágúst hundskaðist ég loksins til sjúkraþjálfara og það brá svo við að ég kom miklu hressari út og þetta var ekki nema viðtal og skoðun. Sálrænt? Eða munar bara svona mikið um að láta velta liðamótum fram og til baka?
Allavega er ég í bjartsýniskasti í dag, afkastaði eina heimsókn (og að sníkja mér matarboð) og hafði orku í að fá mér göngutúr í ljósaskiptunum í kvöld. Það er eitthvað við hlý ágústkvöld sem er svo notalegt. Vantaði bara lyktina af þurru heyi úr hlöðunni.
Ég þarf að klára nokkur verkefni sem ég tók að mér fyrir löngu síðan og halda svo áfram að segja nei við sjálfa mig þegar mig langar til að halda áfram í félagsmálapakkanum. Það er svo margt sem er skemmtilegt en þegar ég grauta öllu saman finnst mér ég ekki gera neitt af því af einhverju viti. Ég ætla að læra að gera færri hluti og hafa þá kannski stærri.
Og lesa vefjagigt.is reglulega
2 ummæli:
My girl!
shg
Wellcome to the party!
Besta lækningin er hófleg hreyfing en það sem er til vandræða að viðmiðið hóflegur breytist dag frá degi. Þannig að útkoman verður :Líðan eftir atvikum!
Vefsíðan www.vefjagigt.is er frábær!
Enn frábærara að vefjagigt er orðin viðurkennd sem sönn sjúkdómseinkenni en ekki bara taugaveiklun, þunglyndi, leti eða lágur sársaukaþröskuldur.
Gangi þér vel, bestu kveðju Bergljót Njóla
Skrifa ummæli