24. ágúst 2008

Kapp er best með forsjá



Ég tók að mér að baka Fatimukökur. Uppskriftin virkar ekki sérlega flókin svo ég hrærði í snarhasti í tvöfalda uppskrift og henti kökunum í ofninn meðan ég sauð saman það sem átti að fara ofaná.

Það var eiginlega ekki fyrr en ég stóð með hálffullan pott af bræddu smjöri, sykri og hunangi og átti að hella ofan á hálfbakaðar kökurnar sem voru þó farnar að verða ansi dökkar að ofan sem runnu á mig tvær grímur því ég áttaði mig á því að ég hef ekki minnstu hugmynd um hvernig bragð, áferð eða þéttleiki blessaðra Fatimukaknanna á að vera.
Ég hellti þó sullinu ofan yfir og í hálfbakað deigði og ákvað að sjá hvernig útkoman yrði.
Meðan ég beið eftir niðurstöðunni í ofninum fór ég og tíndi út í bíl það sem átti að fara með í Sorpu eftir skápasamsetning og húsgagna skiptin á heimilinu. Að því loknu snaraðist ég inn í eldhús og gekk á vegg af brunalykt. Önnur kakan var með vel brenndri sykurhúð en hin meira í kaffibrúnakantinum. Báðar sprungnar, blautar og ekkert líkar myndinni sem er á uppskriftinni.
Sú brennda var notuð í smakk og smakkaðist ekki sérlega vel, ég held að hunangið sem var í skápnum hafi verið af annari sort en Fatima notar.
Það var ekki um annað að ræða en duga eða drepast því ég var búin að lofa kökum svo ég ákvað að fara nú og kaupa mér meira hunang og fara að ráðum Tölvunarfræðingsins sem hefur eiginlega ráðið ríkjum í bökunardeildinni frá því hún var 10 ára og kaupa einnotaform til að baka og afhenda dýrðina í. Nú hafði ég vit á að hræra bara i eina köku í einu, passa hitann á ofninum og fara ekki út úr eldhúsinu (nema rétt í tölvuna til að leyta að uppskriftinni af byggbrauðinu sem var í Fréttablaðinu í dag.) Fyrri kakan í þessu seinna holli var óbrennd og þétt viðkomu þegar ég hellti þessum ósköpum af sykurleðju yfir sem uppskriftin mælir fyrir um og þó minnkaði ég skammtinn örlítið. Sú seinni var ekki eins vel bökuð og þegar leðjan fór yfir hana og það verður að segjast eins og er að það var ekki fyrr en í þessari fjórðu tilraun minni sem kakan varð eitthvað lík því sem ég held að þær eigi að vera. Sýnishornin sjást hér að ofan, eitt hálfbrunnið hraun, vel bleytt upp í hunangskaramellu. Ein þokkaleg útlits en með harðri karamelluhúð og svo sú síðasta mjúk og fín.
Kannski ætti ég að fara með þær allar og einhver getur fengið tvær fyrir eina.
Úr því ég var nú byrjuð að baka og búin að safna svona vel kröftum undir sænginni í gær ákvað ég að baka mér eitt byggbrauð. Mér tókst að komast hjá því að setja byggjmölið í Fatimukökurnar og sykurhungngssmjörsullið í byggbrauðið en eitthvað varð það nú samt flatt.
Bragðið er samt ágætt (af brauðinu sko) og mistökin eru til þess að læra af þeim. Verst að ég baka svo sjaldan að ég er búin að gleyma öllum lærdómi þegar kemur að næstu bökunardögum.
Hnoðra mínum fannst lyktin góð en eitthvað aftraði honum þó frá því að smakka.
Skórinn var skreyttur meðan ég sat og hugleiddi hvaða munur væri á að tapa leik og lenda i öðru sæti eða vinna leik og lenda í þriðja sæti.


Fatimukaka

1/3 bolli brætt smjör

3 egg

½ bolli sykur

Vanilludropar

½ bolli hveiti

½ teskeið lyftiduft

Sett ofan á

1/3 bolli smjör

½ bolli sykur

1/3 bolli hunang

½ tesk. Kanill

Engin ummæli: