19. apríl 2008

Og svo

,,Hleðslutækið mitt er uppi í vinnu" sagði drengurinn þegar hann var að fara. ,,Taktu þá mitt" sagði móðir hans. Og það gerði hann.
,,Kemurðu út í kvöld" sagði vinkonan þegar móðirin kvaddi hana á laugardaginn. ,,Sendu mér sms og ég sé til" sagði móðirin. ,,Pííppp" sagði síminn þegar rafmagnið kláraðist af honum á laugardagskvöldið.
Köttur úti í mýri, setti upp á sér stýri, smjörið rann, roðið brann, sagan upp á hvern mann sem trúa kann.

Og svo fékk Flubbinn tiltektaræði, reif og sleit og og togaði í kassana með gullunum sínum í og ákvað að sum gullin væru rusl en önnur skyldi fægja og raða aftur og betur í hirslur og geymslur. Það vantar inn í sum púslin, á að geyma þau lengur eða henda?
Hún fann bók, bók úr annari og eldri gullakistu. ,,Í föðurgaði fyrrum", gulnuð, rifin og Lithoprent ljósprentaði 1956. Það var áður en eigandinn fæddist. Umm, það gerðist eitthvað fyrir þann tíma líka. Fyrir gömlu daga!
Þetta er listaverk, þulur eftir Guðrúnu Auðunsdóttur, myndskreytt af Halldóri Péturssyni og litskreytt af eiganda.

Nú er svalt um byggð og ból

Nú er svalt um byggð og ból,
byrgir snærinn laut og hól,
úti græna grasið kól,
sem greri um tún og engi.
Vorsins draumar vara sjaldan lengi.
Sauðir renna heim í hús,
í holu þröngri sveltur mús,
nú er hrafninn heimafús,
því hvergi er æti að finna.
Allir mega aflaföngum sinna.

Flóamet við fossinn gljá,
fönnin lykur dyr og skjá.
Vefur Norðri ygglda á
armi jökulköldum.
Drynur þá frá dökkum úthafsöldum.
Bárugarðar berja sand,
brimið æðir hátt á land,
klofna viðir, bilar band,
bátar á skeri strand.
Hollur er sá, sem hlifir í nauð og vanda.

Loksins endar strit og stríði,
stormar lægja um höfin víð,
bráðum kemur betri tíð,
blása vindar þyðir.
Allar þrautir enda vel um síðir.
Inni brennur aringlóð,
úti styttist rökkurslóð,
glóey sendir geislaflóð
gegnum skýjatröfin.
Svífa vorsins vindar yfir höfin.

Brotna ísar, blánar mar,
bátar klúfa öldurnar,
hlýir geislar Guðsólar
græða vetrarsárin.
Huggarinn eini harma þerrar tárin.
Allt þá verður oss í vil
enginn vetur framar til.
Vorsins glæsta gígjuspil
gleði hjartans vekur.
Allt, semlifir undir við það tekur.

Engin ummæli: