Ég er komin aftur í fjölmenninguna á suðvesturhorninu eftir að hafa andað að mér lyktinni af golfstraumnum austan við landið, séð hvað fuglar geta verið grálúsugir, reytt hálfan hana, hreinsað upp helling af fuglakjöti, borðað svartfugl, myndað öldur og klakabólstra, sofið, prjónað, sofið meira og föndrað jólakúlu.
Svo kom ég heim og fór að vinna og vinna og nú er ég búin að vinna af mér þessa tvo frídaga mína.
Á morgun þarf ég að vinna meira og svo þarf vinnan að flytja og svo ef guð lofar og handleggirnir hlýða mér þarf ég að þvo einn eða tvo glugga heima hjá mér og ganga frá hreinatausfjallinu mínu.
Ég lýsti því að vísu yfir í vinnunni að ég ætlaði ekki að gera annað fyrir jól en að skipta á rúminu mínu enda er ég ekki að þrífa gluggana vegna þess að það eru að koma jól heldur vegna þess að þeir eru óhreinir. Og ef, ef til vill bættist við skreytinguna í skúffunum undir sófaborðinu, þessar sem eru fjórar og ég ætlaði einhverntíman að skreyta eina á hverjum sunnudegi í aðventu, já þá bara treysti ég því að enginn segi vinnufélögunum frá því svo þeir standi mig ekki að ýkjum, skrökvi og ósannindum.
Ég rakst á bók í bókasafninu um daginn, í henni var snið að jólaþorpi og ég ætlaði að búa mér til jólaþorp í glerborðið. Ég hef ekki mátt vera að því ennþá og ennþá er ekki kominn kortahönnunarkvöldið sem Sjúkraliðinn lofaði upp á ær og trú að við héldum á aðventunni.
Ég er aftur á móti komin á þá skoðun að gáfulegust myndavélakaupin að svo stöddu sé Olympus E-500 kit með tveimur linsum.
Að þessari niðurstöðu komst ég eftir að hafa pumpað og spurt út úr Bláu konuna með hvirfilvindinn í kollinum, þessa sem enginn fellibylur hefur enn verið látin heita í höfuðið á. Sennilega vegna þess að þessi kona hefur ekki líkamlegt atgerfi til að láta eins og fellibylur og það hvarflaði að mér hvort æðri máttarvöld hefðu sett henni hemil af ráðnum hug því eins og alkunna er getur slóðin eftir fellibylji orðið skrautleg. Synd og skömm samt sem áður.
Og eins og venjulega hef ég ekkert að segja en get samt ekki hætt að blaðra.
2 ummæli:
já Jólakortagerðin okkar....
þú ætlaðir að búa til skreytingu og ég teikna hana og senda út um hálfan heim..
fer ekki að verða laus tími hjá þér?
Hjá mér!
Er einhverntíma laus tími hjá þér?
Skrifa ummæli