Það er borin von að áætlanir byggingarverktaka og iðnaðarmanna standist nokkurn tíma.
Minn vinnustaður ætlar samt að hefja starfsemin í nýju húsnæði á mánudaginn. Í húsi sem er 20 hæðir, ein lyfta komin í gagnið og engar vinnulyftur í notkun, allir iðnaðarmenn langt á eftir áætlun með sín verk á öllum hæðum og þurfa allir að nýta þessa einu lyftu til að flytja fólk og efni á hæðirnar.
En við látum ekki deigan síga og í dag hefur framkvæmdarstýran 1 klukkutíma til að flytja skrifborðin upp og á morgun hefur hún 4 tíma til að flytja allt annað sem við þurfum til að geta byrjað að vinna á mánudaginn.
Starfsfólk þessarar tilteknu framkvæmdastýru glotti út í annað þegar hún byrjaði að segja okkur á starfsmannafundi að byggingarstjórinn hefði tilkynnt sér að ekkert gæti orðið af flutningum um helgina þar sem dúkarinn gæti ekki byrjað að vinna á hæðinni okkar fyrr en á þriðjudag, klósettin væru ókomin upp og flísarnar á snyrtingar líka.
Við áttum ekki von á öðru en við flyttum samt sem kom auðvitað í ljós, hún hafði fundið dúklagningamann sem mætti á staðinn á fimmtudag og var búin með 600 m2 af 800 seinnipart í gær. WC má setja niður til bráðabirgða og ef það dugir ekki öllum er almenningssalerni í næsta húsi. Hurðir koma svo með tímanum og vonandi verður búið að skipta um tengla á ljósunum, sem voru öll með röngum tenglum, svo við þurfum ekki að nota vasaljós enda gæti það verið varasamt ef ekki er vel lokað fyrir lyftustokkana sem ekki eru komnir í gagnið.
,, Þetta verður svolítið eins og að flytja inn í sína fyrstu íbúð" sagði hún og starfsmennirnir glottu út í hitt líka. Við pökkuðum svo samviskusamleg niður í gær og af því lyftumálin standa svona verð ég heima hjá mér í dag og athuga eftir hádegið á morgun hvort ég get orðið að liði í nýbyggingunni við að taka upp úr kössum og skrúfa saman skrifborð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli