Ég er hætt að spila með fyrir þessi jól, hætt að hafa áhyggur af því að finna ekki hina einu sönnu jólagjöf handa dótturinni, syninum og öllum hinum. Ég ætla að forða mér frá mannaveiðurunum sem beita lygakrókana með skrumi fyrir hver jól, hætt að láta það fara í taugarnar á mér að sumir af mínum nánustu séu eins og órói um allan bæ við að finna þetta og hitt til að fullkomna jólin, hlaupa búð úr búð í þeim tilgangi. Ég er hætt að láta það angra mig þó aðrir af mínum nánustu hagi sér á þann hátt sem ég er ósátt við. Ég veit ekki hvort get hætt að finna til með stúlku sem ég er sannfærð um að verði döpur þessi jól en ég get reynt, því mín vanlíðan bætir ekki hennar.
Eins og fyrir hver jól undnfarin ár hefur hellst yfir mig tómleikatilfinning annað slagið, kapphlaupið um hinn fullkomna jólaundirbúning hefst sífellt fyrr. Strax í október förum við að sjá viðtöl og myndir af fullkomnu fólki í fullkomnum jólaundirbúining og það er tíundað hvað þetta fullkomna fók er myndarlegt til munns og handa og lifir í eilífri hamingju alla aðventuna þar sem hápunkturinn eru hinn fullkomnu jól. Og eins og segir á baksíðu eins þessa miðils sem keppist við að selja okkur fullkomin jól þetta árið ,,Kaupmenn veigra sér ekki við því að auglýsa munaðarvarning að andvirði margra mánaðarlauna verkamanns sem gjafir í tilefni af fæðingu hans sem fæddist í fjárhúsi til að vera ofsóttur fyrr kærleikann. Hinir göfugu gefa ekki lengur ölmusu þannig að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir, heldur sem fermetrastórar ávísanir á síðum blaða, þannig að almenningur sjái gæsku þeirra og fyrirgefi þeim okrið og svindið."
Auglýsing innan í þessu sama blaði hvetur okkur til að gefa góða heilsu í jólagjöf og þess auglýsing virkaði eins og köld vatnsgusa framan í mig því heilsan verður ekki keypt í húsgagnaverslun. Engin kaupmaður á landinu getur selt mínum nánustu verkjalausann dag handa mér þeir dagar eru eins og happdrættisvinningar og þeir koma á miða sem ekki þarf að borga fyrir. En vissulega koma kaupmenn til með að beita svipuðu skrumi á lygakrókana til að veiða þá sem vilja sínum nánustu allt það besta sem þeir geta gefið og það er búið að innræta okkur að það besta felist í einhverju sem þarf að borga fyrir.
Ég er hætt að spila með en ekki hætt að vera þakklát fyrir að hafa kynnst öðruvísi jólaundirbúningi og jólahaldi, að hafa kynnst jólaföstu sem ekki einkenndist af kapphlaupi við að njóta lystisemda lífsins í tónleika- og skemmtanahaldi, ofáti og hlaupum milli verslanamiðstöðva, heldur jólaföstu þar sem taktur náttúrinnar réði lífsmunstrinu meira en kaupmennirnir og gul rafljósamengunin var daufar týrur út við fjarðarmynnið meðan stjörnurnar fengu að blika óáreittar á himni og ég er sannfærð um að rósemdarjórtur kindanna í fjárhúsunum eftir gegningar er meira í anda kristninnar en upplestur plastjólasveinsins á jólaguðspjallinu. Reyndar finnst mér jaðra við helgispjöll að láta rautt og hvítt plastið byrja að lesa upp úr helgiriti kristinna manna í nóvember.
Ég er svolítið hissa á kirkjunnar mönnum að mótmæla ekki þessari meðferð á helgisögunum, ég er nokkuð viss um að það hefðu heyrst hávær mótmæli ef skrípið hefði verið látið lesa upp úr Kóraninum.
----------
Og nú ætla ég að halda áfram að hlusta á RÚV rás1 þar sem Njörður P flutti tölu um ýmislegt tengt jólum og las upp jólaljóð m.a úr ljóðabókinni Einferli eftir Finn Torfa sem þar sem ég lærði orðið lygakrókar, mér finnst það snilld.
1 ummæli:
Takk fyrir þessi orð - eins og töluð út úr mínu hjarta. Sömu stjörnur eru líka jólin í mínum huga (nokkrum fjörðum sunnar). Hef ekki reynt að koma því til skila til afkomenda hvernig það er að ganga út fyrir húsið á aðfangadagskvöld og sjá bara stjörnur og eilífðina. Ekki hægt held ég.... shg
Skrifa ummæli