Fór á Ladda sextugann í kvöld og skemmti mér ágættlega, grét stundum af hlátri en það ber að taka fram að ég er með stórlega ofvirka tárkirtla sem þurfa lítið til að framleiða tárafossa svo það er ekki alveg að marka þó ég þurfi að þurka mér ótt og títt um augun á svona sýningum. Elsa mín Lund er alltaf góð sem og Magnús og fleiri og fleiri af karakterunum hans Ladda, mis skemmtilegir þó en það er líka frábært að rifja upp hvað hann hefur ótrúlega mikið safn af karakterum og að sjá hvað hann skiptir auðveldlega um þá. Hann leikur Bubba betur en Bubbi sjálfur.
Ekki veitti mér af að sjá eitthvað hlægilegt í vikunni, ég var og er enn í léttu áfalli yfir að hafa hlustað á dagfarsprútt fólk sem ég á samskipti við daglega slúðra, rægja og tala niðrandi um einstakling sem ekki hefur neitt til saka unnið annað en vera ekki alltaf á sömu skoðun og fjöldinn, vera óhrædd við að viðra skoðanir sínar og hafa ekki nægan kynþokka til að bera til að hafa rétt á að koma fram í fjölmiðlum að þeirra mati. Ég dróg allaveg þá ályktun af því sem sagt var og ég vona að þau hafi ekki sagt neitt um þessa tilteknu konu sem þau ekki vildu að sagt væri um þau sjálf.
Ég vildi gjarnan geta sagt að ég hefði kveðið niður þennan slúðurdraug en ég var orðlaus og ráðalaus og veit ekki hvernig á að benda fólki á að því sæmi ekki svona hegðun.
Ég gaf ættingja mínum einum kveikjara fyrir mörgum árum og lét grafa í hann, kveikjarann sko, þetta:
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.
Kjark til að breyta því sem ég get breytt,
og vit til að greina þar á milli.
Ég held að ég skrifi þetta á blað og hafi fyrir framan mig næstu daga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli