19. október 2007

Hitt og þetta

Ég átti leynivin í vikunni. Hann færði mér pakka á skrifborðið á hverjum degi og gjöfin var valin af norsturslegri nákvæmni. Vinurinn hafið greinilega smekk fyrir ljósum tónum, fágaðri hönnun, góðu kaffi og súkkulaði við kertaljós. Þetta var góður leynivinur, miklu betri en ég.
Ég var líka leynivinur og ég var auðvitað búin að gleyma því á sunnudginn að vinavikan byrjaði á mánudag og ég gleymdi því reyndar líka á mánudaginn svo minn skjólstæðingur fékk engan pakka fyrstu tvo vinadagana. Ég fór nú samt og keypti handa honum smávegis á þriðjudaginn eftir vinnu og hugsaði mér að pakka því inn í fimm pakka og setja bara alla á borðið hans. Hann gæti svo opnað einn pakka á dag og þrjá á föstudag. Þetta klikkaði þegar ég mátti ekkert vera að þvi að hugsa um vini og gjafir á þriðjudagskvöldið og hreinlega gleymdi að taka nokkuð með mér á miðvikudag.
Þann dag heyrði ég að skjólstæðingurinn minn sem enga gjöf hafði fengið það sem af var vikunni væri á leið úr landi á fimmtudag og nú voru góð ráð dýr. Átti ég að láta hann fara gjafalausan eða átti ég að fara heim ná í gjafirnar, finna pakka eða poka undir þær, bæta við einni bjórdós, þetta var jú karlkyns vinur, kaupa eitthvað ætilegt handa honum í næsta bakaríi og lauma öllu saman á borðið hans. Ég var nú ekki alveg að nenna þessu öllu en fór samt og þurfti svo að afhenda pakkann í afgreiðslunni þar sem maðurinn yfirgaf ekki vinnusvæðið sitt í hádeginu. Alltaf þarf fólk að gera manni lífið erfiðara.
Það verður ekki vinavika aftur fyrr en eftir ár.

Heilsan er ekki búin að vera upp á það besta það sem af er mánuðinum og síðan mín ber þess merki. Ég vola bara og væli upphátt við alla sem vilja eða komast ekki hjá því að hlusta en held að ég hafi ekki tíma til að blogga.

Sjúkraliðinn gaf mér tölvu og sonurinn straujaði hana og setti upp aftur svo nú er ég fær í flestan sjó. Get farið út á land með helling af vinnu í fararteskinu og unnið á nýju tölvuna. ,,Nýj"a er auðvitað nálægt því að vera háð en samt er hún ný hjá mér og fyrsta tölvan sem ég ,,á" ein.
Mig minnir hún segja að ég mætti eiga tölvuna, er þó ekki alveg viss.

Ég ræddi textagerð við Sjúkraliðann í kvöld, hún var að spá í að taka Bubba sem verkefni í ljóðaframsögn og kynningu í skólanum en þegar við vorum búnar að skoða nokkra texta eftir kallinn var hún farin að efast.
Mig langar til að vita hvaða textar það voru sem Megas lagfærði hjá Bubba og bera þá saman við aðra texta hans. Það er að segja ef kjaftasagan er sönn.

Ég er að fara á árshátíð á morgun og af því ég er búin að kaupa sokka til að fara í ætla ég að fara og skoða myndavélar á morgun. Mig langar í alvöru vél og mig langar til að læra á forrit til að breyta og bæta myndunum mínum.

Ég kom mér í þá aðstöðu í vinnunni að fá að skipta mér af og skipuleggja vefsíðu fyritækisins, vinnan við það er að fara í gang og ég bíð spennt eftir að fá að segja vefsmiðnum fyrir verkum.

Engin ummæli: