3. október 2007

Einu sinni var

Orðin einu sinni var og ones upon a time eru algengustu upphafsorð ævintýra. En einhvern veginn hefur enska útgáfan meiri töfrahljóm í mínum huga. Ég veit ekki af hverju en þau kalla á ævintýri sem byrja einhvern veginn svona:
Endur fyrir löngu þegar stjörnurnar himinsins voru stærri, skærari og nær jörðu, svo nálægt að ef þú stóðst í tunglsljósi á kaldri vetrarnóttu upp á fjallstindi og teygðir hendurnar upp til stjarnanna urðu fingurnir glitrandi af stjörnuryki. Og þegar norðurljósin þutu í sindrandi litrófi um himinhvolfið vörpuðu þau geislabaugum um höfuð þeirra sem................



Köln
Köln er borg stórrar mikilfenglegrar gotneskrar dómkirkju, borgin þar sem Kennarinn leitaði að varahlutum í bílinn sinn og tyrkneskir leigubílstjórar skilja ekki nóg í ensku til að fara með túristann í varahlutaverslun en aka honum þess í stað langa leið og dýra á bílasölu, bens bílasölu.
Köln er borg þar sem sumum ferðafélögum mínum tókst að borða sjö steikur á amerískum steikarahúsum á fimm dögum.
Köln er borg sem er langt á eftir okkur í reykingabanni á matsölustöðum.
Köln er snyrtileg borg með stórum dýragaði þar sem apar frá Suður- Ameríku og Afríku kúra í nokkurra rúmmetra búri í stað þess að sveifla sér frjálsir í frumskóginum, stórir fílar tölt um á svæði sem er minna en grasagarðurinn í Laugadalnum í stað þess að brokka í stórum hópum um slétturnar og gírafarnir, loðnir og mjúkir kroppa lauf úr vírkörfu sem hangir í staur. Jarðvegurinn nakinn og niðurtroðinn í hverri girðingu, ekki grasstrá að sjá nema nema hjá björnum, otrum og öðrum dýrum sem ekki eru grasbítar.
Dýragarðar eru dapurlegir staðir.
Köln er borgin þar sem ég tók myndinni af litlum dreng á harða hlaupum á eftir dúfu sem flögrar skammt undan. Mynd af miðaldra manni að gefa dúfu að borða úr lófa sínum, mynd af af manni sitjandi í keng á bekk með að ráða sudoku og aðra mynd af honum með opinn munninn öskrandi á þann sem laðar að dúfurnar með brauðmolum, dúfur sem skíta um allt og trufla menn við að ráða talnagátur lífsins þegar þær fljúga upp í hópum. Myndavélin geymir líka myndir af ólíkum ástföngnum pörum sem horfa hvort á annað óafvitandi um alla íslenska túrista sem hafa gaman af að taka myndir af fólki sem á sér einskis ills von, mynd af gamalli konu að strjúka hundi og útigangskonu sem bíður eftir að kvöldið fæli mannfjöldan af svæðinu hennar.
Hún geymir líka mynd af háhýsum í sólsetir sem speglast í glugga á hótelherbergi, uppstillingu af granadeplum og koníakspela á svörtu borði.
Og Köln er borgin sem geymir myndavélina á óþekktum stað

Engin ummæli: