27. ágúst 2007

Örninn

Ég sá örn svífa yfir landinu austan við Bláfellið, við vegarslóðann lá hræ af hvítu lambi. Kannski var örninn að bíða eftir næði til að borða, kannski var hann að huga að einhverju öðru sem hann sá en við ferðalangar á jörðu niðri sáum ekki fyrir okkar takmarkaða sjóndeildarhring.
Svona gífurlegt vænghaf getur ekki verið á nokkrum öðrum fugli hér.

Nokkru norðar við slóðann stóð rauður bíll með silfurlitum köntum á of litlu varadekki og sundurhöggnu framdekki, einn og yfirgefinn í auðninni. Augnabliks aðdánu á útsýninu kostaði mig tvö dekk og ég var nýbúin að aka fram hjá Kúpu hafandi það í flimtingum hvort við yrðum á kúpunni eftir ferðina.

Þegar við renndum í seinna skiptið í hlaðið heima klukkan hálf fimm í morgun og í þetta skiptið á þeim rauða sem hér eftir verður víst nefndur Steingerður eða eitthvað í þeim dúr var ég ofurfegin. Fegin því vera komin og hafa tekist að halda mér vakandi eftir að við komum í byggð, eftir að við komum á malbikaðan veg með einni hvítri rönd sem rann stanslaust aftur undan tveimur rauðum deplum fyrir framan okkur í endalausir þokunni.
Samviskan var ekki góð því farþeginn sem ég bað um að koma með mér aftur inn í óbyggðir að sækja rauðu Steingerði, eða hvað það nú var sem hún var uppnefnd þarna vitaran mín, átti að mæta í skólann klukkan átta og svo í vinnuna strax eftir skóla.
Þrátt fyrir allt samviskubit er ég líka fegin því að hafa haft þennan farþega með mér til að sækja bílinn því mig munaði svo sannarlega um hennar hjálp.
Mig munaði líka svo sannarlega um að eiga góðan Kennarabílstjóra að því hann keyrði okkur á staðinn með tvö dekk og hjálpaði okkur við að koma þeim á sinn stað. Það er ótrúlegt hvað er hægt að setja nokkur dekk undir einn bíl þegar stærðirnar eru misjafnar og ég tala nú ekki um þegar felgurnar taka upp á þeim fjanda að rekast í bremsudælurnar og vantar sveifina á tékkinn.
Mig vantar tvær 16" 5 gata felgur, sveif á tékkinn og loftmæli.

Þetta var meiriháttar ferð og ég verð búin að setja ballansstöngina undir og komin á dekkin aftur þegar næsta ferð verður í september!

Engin ummæli: