Ég er að reyna að muna máltæki sem ég hef einhverntíma lesið um vináttuna en minnið svíkur mig eins og það gerir yfirleitt orðið og ég kann engin ráð við því.
En af gefnu tilefni fór ég að velta fyrir mér vinum mínum áðan, ég held ég eigi tvo eða þrjá og kannski einn til tvo í viðbót.
Einn vinur minn er grænn. Einhverntíma þegar ég var á kafi í djúptþenkjandi andlegum mannræktarpælingum í heimavist í íslenskum stórskógi hefði ég tengt hana við jarðarorkuna og heilunarkraft gróðursins. Einhverjar fleiri spekingslegar samlíkingar duttu mér í hug á heimleiðinni áðan en þær hurfu út í veður og vind meðan ég var að yfirfara ,,settings" flipann á síðunni til að reyna að breyta ,,commenta" kerfinu.
Hvað um það, sumt fók er bara rökfast, yfirvegað, réttsýnt, hefur oft lánað mér vit gegnum árin, hefur þann kost helstan að hafa áhuga á sömu hlutum og ég og mig grunar að það gæti verið gaman að fara með henni í langferðir út í heim ekki síður en á listasafna rölt.
Annar vinur minn er blár. Hún er hrifnæmur kleyfhugi sem hleypur til í hvaða vitleysu sem mér dettur í hug (oftast), með höfuðið í skýjunum og kollurinn rúmar ekki allar þær hringiður hugmynda og langana sem á hana herja og nær þess vegna ekki að rækta hæfileika sína á einhverju einu sviði. Það er þá allavega ekki hægt að kvarta undan einhæfni á þeim bæ. Blátt og grátt er litur þeirra sem reka höfuðið í himininn.
Þetta eru bara skemmtilegar pælingar, kannski ég geri andlega og félagslega litgreiningu á fleir vinum og vandamönnum einhvern daginn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli