Ég er búin að vera í alvöru fríi um helgina. Kom ekki nálægt neinni vinnu og litlu af heimilisstörfum. Fór í miðbæ Reykjavíkur eftir hádegi á laugardag og rölti milli búða, horfði í glugga og spáði í íslenska hönnun sem er í flestum búðum á Skólavörðustíg og þar í kring. Fór svo í bíó um kvöldið og sá létt grín og gaman um sjóræningja.
Í dag sinnti ég menningunni áfram og byrjaði á að fara á Listasafn Íslands og hlusta á leiðsögn um sýningu Cobra hópsins og tengsl Sigurjóns Ólafssonar við hann. Þar kom ýmislegt fróðlegt fram um fugla, grímur, egg og fleiri form í
súrrealismi en ég saknaði þess að fá ekki leiðsögn um salinn þar sem myndir Svavars Guðnasonar héngu eingöngu.
Síðan lá leiðin út á Seltjarnarnes þar sem menningardögum seltirninga var að ljúka og ég skoðaði vinnustofur ma þeirra Tolla, Kristínar íkonamálara og fleiri góðra listamanna sem ég er of sifjuð til að muna nöfnin á.
Góður dagur og það eina sem ég sakna að hafa ekki komist yfir er fótabaðið á Nesinu litla og lága.
Á morgun er sumarfrí og vonandi sólskin og blíða, ég ætla að reyna að komast í garðvinnu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli