Ég hef verið að hugsa, þökk sé Gerði Kristnýju, hugsa um hvernig ég geti orðið fræg.
Mig langar til að verða fræg fyrir ekki neitt en bara veit ekki hvernig ég á að fara að því. Gæti ég orðið fræg á Íslandi fyrir að stilla mér upp á Austurvelli, standa þar í nokkra daga við hliðina á styttu Jóns Sigurðssonar og gera ekki neitt. En bara það að standa eins og stytta og gera ekki neitt er jú að gera eitthvað svo ég get ekki notað það. Get ég farið að stunda næturlífið í Reykjavík af miklum og áberandi krafti með öllum þeim aðferðum sem ungt fólk í dag notar til að fá athygli ljósmyndara slúðurvefsíðna og slúðurblaða? Það er samt að gera eitthvað, ekki satt?
Ég er að láta mér detta í hug ýmislegt annað, sumt er ekki falið til birtingar hér, til að vekja á mér athygli og verða fræg en sá böggull fylgir skammrifi að allt felur það í sér að gera eitthvað og þá verð ég ekki fræg fyrir ekki neitt.
Ég held að ég tilheyri þeim hópi fólks sem þarf að endurskoða viðhorf sín til ýmissa mála og ábending Gerðar Kristnýjar í Bakþönkum í dag er þörf áminning.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli