Sunna er nafn sem oft hefur komið fyrir í fjárbókunum á mínum bæ, nú kemur það oftar fyrir í þjóðskrá en í fjárbókinni. Eitt árið voru settar á tvær lífgimbrar undan á sem hét Sunna og þar sem móðirin endað ævidaga sína þetta sama haust var hún endurnýjuð. Það þótti ekki fara vel að hafa Sunnu I og Sunnu II svo önnur gimbrin fékk nafnið Sunna en hin nafnið Hvítasunna. Önnur í Hvítasunna hefur samt aldrei komist á legg.
--------------------------------------------------
Ég var að vinna mest alla helgina og í dag fram á kvöld. Vinnuplanið breyttist vegna óviðráðanlegra atvika og við því er ekkert að gera. Enginn er eyland og kæruleysi fólks bitnar að sjálfögðu á þeirra nánustu.
Þeir sem leggja heilsuna að veði sí og æ eru sjálfsagt sáttir við að valda foreldrum, börnum, mökum og öðrum ættingjum vanlíðan, hræðslu og kvíða eða hvað?
Þetta er þeirra líf og heilsa en hafna þeir ummönnun og ummhyggju sinna nánustu þegar þeir eru búnir að koma öllu í óefni. Er spurt um það hvernig ættingum líður sitjandi yfir sjúklingnum í dái eða öndunarvél á sjúkrahúsi þegar öllu er slegið upp í kæruleysi án þess að hugsa um afleiðingarnar.
En það þýðir lítið að ergja sig á ábyrgðarleysi annara og því sem manni finnst þeir leggja á sína nánustu að ósekju, maður breytir víst engum nema sjálfum sér og tekur ekki áhyggjur af öðrum.
Annars slógu þessar fréttir og aðrar eldri mig svolítið úr af laginu en ég er nú svo langt út úr lagi þessa daga að það er ekkert að marka. Er samt töluvert þungt hugsi um ýmsa fjölskyldusjúkdóma, bjálka, flísar og blá augu.
---------------------------------------------------------
Fyrir langt um löngu fór ég á tónleika á litlum stað úti á landi. Kennarann átti upptökin að þessari tónleika för okkar og eftir að hafa hlustað á mjög svo sérstaka söngkonu syngja og spila undir á 12 strengja gítar fór hann og keypti allar plöturnar hennar sem hún var að selja þarna. Þessi tónlistarsmekkur Kennarans kom flatt upp á mig og var ég þó búin að þekkja hann í nokkur ár þegar þetta var.
Plöturnar rykféllu ekki í skápnum meðan plötuspilari var til á heimilinu en hvar þær eru í dag veit ég ekki. Hitt veit ég að þessi umrædda söngkona lést úr krabbameini í vetur og í kvöld var endurtekinn þáttur um þessa konu í útvarpinu. Ég gleymdi að sjálfsögðu að hlusta á hann, rétt náði síðustu mínútunum. Síðari hluti er á dagskrá rásar tvö annað kvöld en ég verð ekki nálægt útvarpi þá. Því miður.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli