Ég vaknaði í morgun með sannfæringu, eina alveg nýja. Ég var sannfærð um að þessi morgun væri einmitt rétti morguninn til að skella sér í lítið notaðar íþróttabuxur, annan skjólfatnað og strigaskó og fara út að ganga.
Þetta var klukkan 5:50 í morgun og af því mínar sannfæringar eru brothættar og óstöðugar hentist ég út án þess svo mikið sem að gefa mér tíma fyrir tannburstann. Ég náði hálftíma göngutúr rétt á meðan nóttin vék fyrir deginum.
Ég var á einhverjum tímapunkti að velta því fyrir mér að setjast upp í bílinn, finna Sjúkraliðann og ganga henni til samlætis en tilhugsunin um níðþungar töskurnar hennar og vöðvabólguverkina sem ég þjáist af þessa dagana komu í veg fyrir það. Ég er samt með örlítið samviskubit yfir að koma henni ekki til hjálpar úr því ég var komin út á annað borð.
Nú er bara að bíða og sjá hvort næstu morgnar hafi sama sannfæringarkraft.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli