22. september 2006

Sjúkraliðinn segir að ég sé veikluleg, grá og guggin! Hún sagði mér það að vísu ekki, ég frétti það eftir henni utan úr bæ. Við hverju bjóst hún eiginlega? Að ég væri eins og blóm í eggi, tilbúin að trimma um fjöll og fyrnindi eftir að hafa verið rekin á hol, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur fjórum sinnum.
Ég er með harðsperrur í maganum og enga orku í kroppnum. Fór aðeins út í blóma-föndurbúð í dag til að kaupa það sem vantaði í handavinnuna mína. Var við það á tímabili að fara og biðja um hjólastól en hætti við að láta líða yfir mig og hékk upprétt þangað til bílstjórinn minn kom aftur, hann þurfti nefnilega að skilja mig eftir meðan hann sinnti nauðsynlegri erindum.
Það var samt gott að komast aðeins út það er nefnilega hundleiðinlegt að vera veikur heima, þá er ekkert hægt að gera nema vera veikur og þó kötturinn sé voða ánægður með að hafa mig í horninu finnst mér hann frekar fámáll.
Ég er ákveðin í að láta mér batna svo hratt að ég geti farið og unnið hálfan daginn fljótlega eftir helgina.

Engin ummæli: