25. júní 2006

Blómadagar

Planið var að fara og tína blóðberg til að hafa í tedrykkju vetrarins en Vinkonan með blómagreindina forfallaðist vegna veikinda barnabarns svo ég fór bara í vinnu og þaðan í blómaleiðangur innanbæjar.
Ég náði að heimsækja þrjár gróðrarstöðvar ef maður telur Garðheima með. Rétt missti af þeirri fjórðu en á örugglega eftir að bæta mér það upp í vikunni. Það fer hver að verða síðastur að koma sumarblómunum niður fyrir haustið!
Annars keypti ég mér meira af fjölæru en sumarblómum, finnst það miklu skemmtilegri kaup. Ég fann eitthvað sem heitir Alpaþistill og potaði honum, ásamt skrið- bláeini í fósturgarðinn í Hjöllunum. Þar blómstrar gullsópurinn við hliðina á purpurabroddinum og þyrnirósinni, sumir túlípanarnir sem ég setti niður í haust eru ennþá blómstrandi og alltof flottir til að sjá þá bara aðra hverja viku. Það verður harðbannað að selja þennan garð ef húsið verður selt, ég er búin að setja of mikið niður þar til þess og á örugglega eftir að bæta einhverju við bæði í sumar og haust!
Hjá Tölvunarfræðingnum (og mér)setti ég niður Himalajaeini ásamt fleiru í blómakassann okkar. Mig vantar annan! (blómakassa sko) En í gott skjól bak við hús potaði ég niður purpuralitri blásól sem ég rakst á í Gróðrarstöðinni Mörk. Ég vona að hún lifi vel og lengi, amk betur en óláns jarðaberjalyngið með flottu bleiku og gulu blómunum sem ég er að ræna öngum af á hverju ári og alltaf drepast á endanum. En ég held áfram að ræna af þvi þar til þetta tekst, það er eitt blóm á anganum sem ég nappaði í vor!

Engin ummæli: