27. júní 2006

Blóðberg


Skrapp með blómagreindar vinkonu minni austur fyrir fjall eftir vinnu í dag. Hana langaði í blóðberg og mig langaði aðallega út úr bænum og til að hitta þessa vinkonu sem ég hef haft alltof lítinn tíma fyrir í vetur og vor.
Við fundum lítið af blóðbergi og það var smátt og kyrkingslegt, veðrið í sumar virðist ekki hafa verið því hagstætt. Annars er nóg af því yfirleitt á söndunum ofan við Þorlákshöfn. Verst að með allri þessari uppgræðslu verður blóðberginu útrýmt og ekki notum við vinkonurnar lúpínu eða melgresi í te. Reyndar gekk svolítið fram af mér að sjá aspargræðlinga þarna í sandinum en sjálfsagt sér einhver þessa sanda fyrir sér sem skógi vaxna sléttu með öspum og jafnvel pálmatrjám.
Eftir blómatínslu fórum við og skoðuðum nágrennið, keyptum hamborgara á Stokkseyri og rúntuðum um Eyrarbakka. Tíndum vallhumal á fjörukambinum og ég verð að viðurkenna að ég tók upp bæði blóðberg, vallhumal, baldursbrá og tágamuru til að prófa að setja niður í einhverjum garðinum. Sem minnir mig á að ég er eftir að koma þessu í mold svo það drepist ekki í nótt.
Best að ljúka því af og það er ljóst að ég fer ekki snemma að sofa í kvöld!

Engin ummæli: