Ég var send í blómabúð í gær. Tilefnið var að móðursystir mín hefði orðið sjötug á þessum degi hefði hún lifað en hún lést úr krabbameini rúmlega fertug. Ég hef árlega frá því ég flutti í bæinn farið þeirra erinda fyrir mömmu að fara með blóm á heimili hennar og Gamla mannsins.
Í gær braust ég inn þegar Gamli maðurinn var í brúðkaupi hjá næst elsta syni þeirra sem valdi þennan dag til að giftast konunni sem hann er búinn að búa með í 17 ár og eignast með þrjú börn. Þau reikna sennilega með að sambúðin haldi úr því sem komið er.
Þegar þessi umræddi brúðgumi fæddist fyrir rúmum fjörutíu árum síðan fór faðir hans og tilkynnti föður sínum og stjúpmóður að erfinginn væri fæddur og reyndar ættu hann og barnsmóðir hans líka ársgamlan dreng fyrir. Þeir flana ekki að neinu þessir feðgar.
Vegna þess að ég var send í blómabúð í gær á ég verk fyrir höndum í dag. Ég er nefnilega stjórnlaus á svo mörgum sviðum, þeim sem snúa að blómum og námskeiðum.
Ég keypti sem sagt einn blómvönd í gær, eitt pottablóm til að taka með mér í vinnuna, fimm pakka af fræjum, sáðbakka og mold.
Og nú horfi ég á blómin í stofuglugganum ákveðin í því að það sé ekki of snemmt að skipta á þeim og að það henti ágættlega að sá blásól, mjólkurjurt og graslauk í bakka og rækta í herbergi Eilífðarnemans. Ég meina- ég leigi handa honum herbergi sem hann aldrei notar og því ekki að breyta því í uppeldisstöð fyrir plöntur. Ég hendi bara rúminu í geymslu og set upp borð fyrir sáðbakkana mína.
Svo ætla ég að fara í göngu eitthvað út í bláinn eftir hádegið og sannfæra sjálfa mig um að mér sé sko alveg bötnuð pestin og annað sé bara aumingjaskapur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli