13. febrúar 2006

Menningarminjar

Mig hefur svo sem lengi grunað það- en nú er ég loksins sannfærð. Ég er bara ekki alveg í lagi.
Ég lagði það á mig að sitja á námskeiði 5 tíma á fimmtudagskv., 5 tíma á föstudagskv., laugardaginn frá 9 til 19 og sunnudag frá 9 til 17 og þetta er bara byrjunin. Svo hef ég ekki minnstu hugmynd um hvað ég ætla að nota afraksturinn af þessu námi. Nema- jú ég veit að framvegis verða allir sem voga sér að ganga með mér kaffærðir í hinum og þessum upplýsingum og umhverfistúlkun. Menningarminjar af öllum stærðum og gerðum verða túlkaðar og tjáðar og ekki lagast predikanirnar um nýtingu lands og gæða, tilefni friðlýsinga og fornminja, upptalningin og yfirheyrslurnar um plöntunöfn og annað náttúrufar. Sennilega verður þetta til þess að ég verð fljótlega ein í hóp í gönguferðum og jafnvel Sjúkraliðinn flýr í skjól.
Ég ætla þá að reyna að stilla mig þangað til við erum búnar að finna okkur ferð fyrir sumarið.
Það er hlé fram í vikuna en þá byrjar ballið aftur, fimmtudagskvöld og föstudagskvöld frátekin í ,,mannleg samskipti" og ,,Gestir friðlýstra svæða" og eihverntíma verð ég að finna mér tíma til að lesa lögin um náttúrvernd. Í trúnaði sagt þá er þetta ofsalega gaman, líka að lesa lögin. Einu efasemdirnar sem ég hef eru að ég hafi ekki það sem þarf til að sinna þessu sem alvöru starfi. Fyrir utan auðvitað að hafa ekki efni á að demba mér í þetta af alvöru. Og að frátaldri þreytu eftir tveggja helga stíft prógramm í vinnu og námi, plús ólukkans kvefpestar líður mér barasta fj. vel.

Svo var blað númer tvö í balderingunni miklu betra en blað númer eitt og ég á þá alltaf framtíði fyrir mér sem þjóðbúningasaumari ef hitt rennur út í sandinn.

Engin ummæli: