Fór á myndkvöld hjá FÍ ásamt hinum tvöhundruð og eitthvað sem fengu sömu hugmynd. Sat í stúkusæti uppi á borði upp við vegg og í kaffihléi var hægrifótur lamaður og ég sá ekki fram á að labba eitt eða neitt framar, hvorki á þeim slóðum sem Ómar var að sýna okkur frá né annarstaðar. En eftir kaffi rölt og snittuát var farið að færast líf í löppina og ég er ákveðin í að labba helling i sumar.
Sá fullt af fólki sem ég þurfti að heilsa upp á og örfáa sem ég náði að heilsa upp á. Hinir vita ábyggilega hvers þeir fóru á mis.
Hitti meðal annars ferðafélaga af Ströndunum sem er að kortleggja og GPS leggja gamlar slóðir á Mosfellsheiðinni. Ég kunni ekki við að biðja hana að taka mig með næst þegar hún færi.
Hitti ferðafélaga úr Hlöðuvíkinni frá því í sumar, sú verður með ferð í sumar sjálf og það kemur sterklega til greina að fara með henni ef ég verð ekki utan við landssteinana þá. Mig klæjar í fæturnar að komast á Langakamb og ég er viss um að ég gæti bundið fyrir augun á Sjúkraliðanum og leitt hana með mér þangað.
GPS námskeið í FÍ fljótlega og ætli ég verði ekki að kosta því til. Ég sé ekki fram á að ég gefi mér tíma til að læra á græjuna mína á eigin spýtur.
Frönskunámskeiðið féll niður af tæknilegum ástæðum, ég var ein skráð þar! En skrautsaumurinn er á áætlun, þar eru 6 skráðir enn sem komið er.
Leikfimi í hádeginu á morgun og á föstudagsmorgun svo ég geti haltrað um í sumar án þess að þurfa með mér súrefni og hjólastól ég vil frekar ganga en bródera ef ég þarf að velja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli