Það er kominn enn einn sunnudagurinn og í þetta skiptið þarf ég ekki að rjúka í austur og vestur til að klára eitthvað sem á að vera tilbúið á mánudag. Var að vinna alla síðustu helgi og þó ég vær stálslegin á mánudag fór aðeins að draga af mér þegar leið á vikuna. Það verður að viðurkennast að ég hef ekki úthald í svona tarnir.
En eins og áður segir er kominn sunnudagur og þegar ég áttaði mig á því að framkvæmdalistinn minn er að stórum hluta valfrjáls ákvað ég að fara á fætur og fá mér kaffi og blogg og kannski eggjaköku og morgunblað í eftirrétt. Hvort eða hvað verður svo framkvæmt á eftir kemur bara í ljós, kannski farið í heimilisverkin, kannski aðeins í vinnuna og kannski farið í að rekja upp og laga lopapeysuhettu sem var kláruð í gærkv.
Árangursríkasti lærdómurinn er af reynslunni en mikið fjandi getur hann stundum tekið langan tíma.
Svo er ég að hugsa um að kaupa 3 jólagjfir í viðbót við þessar tvær sem ég er búin að kaupa en ég nenni ekki fyrir mitt litla líf að fara út í búðabrjálæðið. Ég kíkti inn í eina búið í gær og var svo örmagna að ég var á mörkunum að komast út aftur og þó voru örfáar hræður þar inni. Hvernig væri ég eftir hálftíma í Kringlunni eða Smáralindini?
Og ég sem þarf að fara á annan hvorn staðinn og kaupa jólagjafir fyrir vinnuna. Mér finnst nú að sá vinnustaður ætti að bæta við jólagjöfina mína í ár. Svon til að verðlauna mig fyrir að hafa þraukað þar öll þessi sex ár og að ég talin nú ekki þessa mánuði sem eru liðnir frá því ég ætlaði að vera hætt þar!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli