23. nóvember 2005

Samviskubit og réttlætingar

Ég er búin að eyða heilum degi í að réttlæta veikindaleyfið mitt fyrir sjálfri mér. Ég þarf ekki að réttlæta það fyrir vinnuveitandanum, hann lítur á það sem sjálfsagðan hlut að starfsfólk veikist annað slagið. En ekki ég! Mér finnst ég eiga að vera í vinnu ef ég get reist höfðuið frá kodda og það gat ég í gær og get líka í dag. Samt er mér að takast að ýta samviskubitinu út í ystu sálarkima og er þá að takast á við þessa þráhyggju að finnast ég ,,eigi" að gera eitthvað af viti ef ég hangi heima.
Uppfull af þessari þráhyggju ákvað ég að takast á við grængolandi aðsetur fiskanna minna í gær og með herkjum og löngum hléum tókst mér að skrúbba og skúra þörungagróðurinn innan úr heimili þeirra og af húsmununum. Fiskabúrið stendur tandurhreint á baðinu og bíður eftir að ég haldi á því að sinn stað. Þetta hafðist á einum degi og geri aðrir betur.
Þó ég sé byrjuð að æfa mig í æðruleysi gagnvart jólamarkaðsetningargeðbilinni og taki auglýsingabæklinga ýmiskonar sem hrynja í stórum stíl inn um bréfalúguna með töngum og beri þá beint í ruslafötuna er ég ekki í neinni jólaafneitun og er byrjuð að hugsa um að setja jólaskreytingu í fiskabúrið. Ef fiskarnir mínir verða ekki allir dauðir fyrir jól er ég að spá í að setja jólatré upp í hægra horninu baka til hjá þeim og kannski finn ég eitt jólahús til að setja í hitt hornið, hreindýrasleði tæki sig svo vel út í miðju búri. Ég veit ekki alveg hvar ég kæmi jólaseríu fyrir hjá þeim.

Engin ummæli: