Ég á kjörgarð, ( er það ekki rétt skilið hjá mér að kjörbörn séu ættleidd og ef svo er á ég auðvitað kjörgarð) ég þurfti ekki að fara í gegnum neitt ættleiðingarferli til að fá að taka hann að mér heldur mætti ég bara og byrjaði að vinna í garðinum. Ég er viss um að ef ég leitað eftir samþykki einhverstaðar hefði mér verið neitað um það og spurði þess vegna engann. Kannski hefði það þó verið garðinum fyrir bestu að strangari kröfur væru gerðar til fóstru hans, hann hefur verið sorglega vanhirtur í vor. Annars er það ekki mér að kenna frekar en það að ég skyldi standa uppi veskis, síma og lyklalaus frá hádegi í gær til klukkan fimm í dag. Það er alltaf einhverjum öðrum að kenna og Sjúkraliðinn ber ábyrgði á þvi að ég haldi á þvi með mér út sem ég ber þar inn. Allt henni að kenna; og syninum fyrir að setja ekki skilaboðin um veskið þar þau væru ekki í hættu á að lenda í blaðarusli sem dóttirin var ábyggilega búin að henda í gærkveldi áður en ég kom heim. Það væri svo voðalega þægilegt að geta verið argur og pirraður út í þau öll sömul fyrir að ÉG gleymi veskinu mínu. Verst að ég held að þau fái ekkert samviskubit þó ég segi þeim að þetta sé á þeirra ábyrgð. En þetta var langur og krókóttur útúrdúr.
Garðurinn minn var upphaflega garðurinn hennar nöfnu minnar sem var fyrir rúmum tuttugu árum að koma sér fyrir í raðhúsi í Kópavoginum eftir að hafa búið hátt á annan áratug í 2 herbergja sumarbústað með fjögur börn. Hún flutti inn í raðhúsið gólfefna og hurðalaust með gamla bráðabirgða eldhúsinnréttingu og byrjaði að skipuleggja og vinna í garðinum sínum. Garðurinn og húsið var enn hálfklárað sumarið sem hún dó þremur mánuðum eftir að hún greindist með krabbamein. Yngsta barnið hennar fermdist ári seinna.
,,- Stundum verða vorin vonum manna hörð" sagði orti Jón Magnússon og þessar ljóðlínur koma æ oftar upp í hugann. En það er önnur saga sem vonandi hefur annan endi. Ég held fast í þá skoðun að vonin saki engan.
Ég kíkti í garðinn ,,minn" í dag. Það er eftir að taka part af honum og hreinsa og lagfæra og til að spara mér vinnu við að rista ofan af gömlu blómabeði fór ég með svarta ruslapoka og breiddi yfir það. Það verður auðveldara að hreinsa það upp þegar grasið verður kafnað undir plastinu.
Gamli maðurinn sem var giftur henni nöfnu minni er sérviskan uppmáluð og hefur horft á mig með mikilli tortryggni stundum þegar ég hef tekið upp á einhverri vitleysu í garðinum. Stundum dettur honum í hug að gera eitthvað annað í garðinum en setja niður kartöflur, oftast hefur hann þó komist að þvi að við erum ekki sammála um gagnsemi aðgerðanna. Hann til dæmis hló að mér þegar ég mætti eitt kalt og dimmt októberkvöld fyrir nokkrum árum og potaði niður laukum. Hann hló ekki um vorið þegar páskaliljurnar blómstruðu, þá brosti hann bara. Ég hló ekki þegar hann sagaði greinina af eplatrénu þvert um miðjuna. Stúfirinn grét framan í mig þegar ég mætti næst á svæðið og ég sagaði afganginn af greininni upp við stofn. Ég brost samt, svona eftir að hafa náð mér af mesta áfallinu þegar ég sá risavaxin kartöflugrös meðfram limgerðinu milli lóðanna eitt árið þegar ég kom í bæinn eftir sumarfrí. Átti ennþá auðveldara með að brosa að því árið eftir.
Ég bíð spennt að sjá hvort útsæðið hefur verið of mikið þetta árið.
Eitt síðsumar færðum við grillið eitthvað til og undir þvi hafði einhver planta sáð sér. Ég þóttist þekkja gripinn, setti hana í blómapott og gróf hann svo niður í beðið sem eplatrénu hafið þóknast að vaxa upp úr á sínum tíma. Vorið eftir komu nokkur jarðaber á plöntuna og í ár er þétt jarðaberjalyng þakið blómum undir eplatrénu. Það hefur ýmislegt sáð sér sjálft í þenna garð, sumt fengið að vaxa annað ekki.
Í dag benti Gamli maðurinn á dagstjörnu sem hafði potast upp úr stígnum niður að húsinu. ,,Ég ætla að eiga þetta blóm" sagði hann. ,,NEI" sagði ég. Hann horfið á mig og endurtók ,,Ég ætla að eiga þetta blóm" endurtók hann, sannfærður um að mér hefi misheyrst. ,,Nei" endurtók ég. ,,Það er fullt af helv.. dagstjörnu út um allan garð" sagði ég, ,,er það ekki nóg?" ,,Ég er búin að slá allt í kringum það og lét það standa" bætti hann þá við. ,,Tek alltaf sporin í kringum það" og svo tók hann nokkur ýkt hliðarspor til að sýna mér hvernig hann krækti alltaf framhjá blóminu til að troða það ekki niður.
Ætli ég láti ekki helv.. blómið vera í sumar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli