12. júní 2005

Æfingarganga í Esjuhlíðum

Ég og Sjúkraliðinn byrjuðum í ströngu ævingarprógrammi í dag. Drifum okkur á bílastæðin við Mógilsá og þrömmuðum göngustíginn upp í Esjuhlíðar. Vorum mjög uppteknar af að bera saman úthaldið núna og fyrir fjórum árum þegar ég gaf Sjúkraliðanum sem var þá ekki einu sinni orðinn stúdent, Esjugöngu í afmælisgjöf. Þá skriðum við upp á topp, núna örkuðum við langt upp í hlíðar og lögðumst niður í sinuvaxinni laut, létum sólina brenna á okkur nefin og hlustðum á fílana garga í klettunum, duglega göngufólkið kallast á og mása og hvæsa á leið sinni upp á toppinn og dottuðum svo við lækjarniðinn undan skaflinum sem við lögðum okkur hjá. Það var ljúft og sólin skein skært í dag. Ég rifjaði upp tónleikana sem Grjónið hélt fyrir mig í gærkveldi og söng ,,skin sol, skin á mig sky, sky butt me þig"
Við höfðum það annars okkur til afsökunar að fara ekki á hæsta tind í dag að Sjúkraliðinn var á leið í grillveislu með vinnufélögunum og eins og venjan er þegar hún er fjarri þeim eru þeir óhuggandi. Hver á fætur öðrum hringdu þeir og með grátstafinn í hverkunum heyrðust þeir æpa í símann, ,,Hvar ertu núna" ,,Ertu ekki að koma" ,,Fórstu á toppinn" ,,Ætlar þú ekki að koma og grilla, við kunnum það ekki"
Sjúkraliðinn dreif sig svo með oforsi beint í bílinn þegar við komum í hlaðið heima hjá mér, enda ekkasogin í mannskapnum orðin átakanleg og brunaði burt til að redda grillveislu, hún sveikst um að gera allar armbeygjurnar og magaæfingarnar sem hún átti að enda æfingarprógrammið á í dag. Ég sé að næst verður hún bara látin gera armbeygjur á 500 metra fresti í gönguferðum.
Það þýðiri náttúrulega ekkert annað en sýna hörku ef það á að labba 8 til 10 tíma á dag í heila viku í sumar. Svei því.
Á morgun er stefnan tekin í gönguferð eitthvað inn á Hengilssvæðið en þar er Sjúkra búin að frétta af einvhverju ,,villibaði" og heldur að helsta ráðið til að koma Gólfsópinu sínu af stað í æfingarprógramm sé að binda sundfötin hennar á prik og dingla því fyrir framan hana á leiðinni að sundstað. Ég er að spá í að biðja hana að hengja súkkulaðistykki á prikið líka og dingla því fyrir framan mig í fjallgöngum.
Eða ætli það væri eitthvað annað hentugra til að teyma mig áfram? Koníakspelinn eða .. ég er ekki viss.

Já og svo fékk reyndar Sjúkran brilljant hugmynd í dag, ég verð bara að viðurkenna það þó mér sé það ekki ljúft. Framvegis verður skissublokkin og bíantur með í vasanum og ég fæ að halda plöntufyrirlestur og hún teiknar blómin. Kannski fæ ég líka að teikna ef hún verður dugleg að muna hvað heitir hvað ;)

Eins gott að það verið ekkert helv. næturrölt á sumum í nótt, það verður nefnilega engin miskun í fyrramálið og faraið af stað lööööngu fyrir hádegi.

Engin ummæli: