Er búin að taka næturvaktina í fjárhúsunum flestar nætur síðan ég mætti í sauðburðinn. Búskapurinn ekki lengur svipur hjá sjón og flestar nætur hefur verið nóg að fara á tveggja tíma fresti út og stía frá eða kom fyrir til bráðabirgða þeim fáu ám sem hafa borið. Að fyrstu nóttinni untantekinni hefur hálfur til einn klukkutími dugað í hverri ferð. Fékk frí síðustu nótt og svaf varla væran dúr af því ég var alltaf að hlusta eftir því hvort sonurinn færi nú örugglega ekki út og hvort hann væri nú ekki að koma með klukkuna sem hann ætlaði að láta inn til mín þegar hann færi að sofa.
Núna er klukkan rétt yfir miðnætti og í fjárhúsunum tvær 10 ára stelpur á þessum skelfilega skríkjualdri og standa í þeirri sælu trú að þær séu á næturvaktinni. Þær eru svo heppnar að það eru til einhverskonar handtalstöðvar á staðnum. Önnur er staðsett í fjárhúsunum og á hinni kveiktu þær og stilltu upp á eldhúsborðinu til að geta kallað í mig ef á þyrfti að halda.
Þær hafa kallað til að segja mér hitt og þetta og ekki allt komið sauðburði við. Í augnablikinu þegja þær og ef þær þegja mikið lengur fer ég að fara út til að athuga hvað þær séu að gera af sér.
Annars er allt að verða borið en eftir að setja lambamerki í helling af lömbum og ormalyf í allar ær í leiðinni. Við tókum smá rispu í dag og merktum. Sonurinn og vinkonan tóku til hendinn með okkur, hann sveiflaði kútnum með ormalyfinu á bakið í þartilgerðum ólum og sprautaði ofan í hverja ána á fætur annari. ,,Opna munninn og kyngja, viltu kannski fá orma" messaði hann yfir þeim. Eftir fyrstu tilraun neitað hann samt að setja lambamerki í lömbin, rétti mér græjurnar og sagði að það færi mér best að vera ljóti kallinn. Ég tók hann á orðinu og gataði og hengdi merki í helling af eyrum, markaði svo nokkur svo ég kom heim úr fjárhúsunum í dag með blóðsletturnar um allt andlit og hendur. Tilbúin í aðalhlutverk í einhverri hryllingsmynd.
-------------------------------------------------------------
Það var eins og mig grunaði, skríkjurnar voru að dunda sér við sitthvað í fjárhúsunum sem þær hefðu ekki fengið að gera ef ég hefði verð nálægt þeim, eins og að hjálpa ám sem ekki voru hjálpar þurfi. Önnur þeirra var að snerta nýfætt og karblautt lamb í fyrsta skipti á ævinni og fékk svo að hjálpa kind líka og í hennar huga og reyndr þeirra beggja var þetta svo stórkostlegt afrek að ég hafði ekki brjóst í mér til að gera meira en halda fyrirlestur um náttúrlega fæðingu og burð. Talaði ekki bara fyrir daufum eyrum heldur held ég alveg eyrnalausum börnum.
__________________________________
Svo held ég að það séu einhver samantekin ráð í fjárhúsunm núna að hafa af mér miðnæturblundinn. Ég ætla að horfa á hálfann þátt af Lost áður en ég fer út aftur. Þe. ef ég kem þessari færslu úr WordPad og yfir á blogspot án þess að þurfa að slökkva og kveikja á tölvunni nokkrum sinnum í viðbót. Hún á það til að frjósa á netinu. Á það til segi ég, ætli það sé ekki í um það bil 2 skipti af hverjum þremur sem ég reyni að komast á netið.
---------------------------------------------------------
Og, nei ég ætlaði ekki í tölvu- bókhaldsvinnu heldur í tölvu- vefsíðu- uppkastsvinnu fyrir eina vinnuna ef ég hefði tíma til. En til að afþjappa forritin sem ég er með á disk þarf ég winzip og það er held ég ekki að gera sig að ná í það á netið.
----------
2 ummæli:
Get látið þig hafa Winzip á diski ef þú kemur í Egilsstaði. Komdu bara í Tölvusmiðjuna og spurðu eftir Tótu.
Takk fyrir það Tóta. Fór reyndar í Egilstaði í gær en var ekki búin að lesa þetta þá.
Held svo að ég sé búin að finna Winzip á diski hjá bróðir mínum svo ég ætti að geta farið að setja þetta upp. Verður nú samt sennilega lítið eftir af fríinu þegar tölvan verður orðin ,,nothæf"
Skrifa ummæli