22. maí 2005

Nöldur

Ég er nöldrari og læt hitt og þetta fara í taugarnar á mér. Allra mest fer í taugarnar á mér þessa dagana, mánuðina og árin léleg íslenskukunnátta fólks sem vinnur við fjölmiðla og vefsíðugerð.
Verð í fleirtölu er ekki til í íslensku!
En ég verð að hlusta á fólk tala um ,,verðin" í tíma og ótíma í vinnunni hjá mér sem og annarstaðar. Ég gerði eina heiðarlega tilraun til að kenna vinnufélögunum íslensku en þau eru svo föst í enskunni að þau geta ekki lengur hugsað á íslensku heldur þýða enskar hugsanir sínar orðrétt.
Tungumál breytast jú og þróast en má ekki lengur gera þær kröfur á fólk að það beiti örlítilli sjálfstæðri hugsun og ,,íslenski" enskuna í staðin fyrir að lepja upp enskuna og þýða hana orðrétt.
Á vefsíðum ýmissa fyrirtækja rekst ég svo á setningar eins og þessa ,,Öll verð eru með virðisaukaskatti". Ég bara get ekki að því gert að ég læt þetta fara óstjórnlega í taugarnar á mér og eyðileggja fyrir mér ferðalag um þessa annars ágætu síðu.
Í flestum tilvikum er langskólagengið fólk að ,,klæmast" svona á íslenskunni og mér finnst lágmark að fjölmiðlafólk kunni íslenskuna sína betur en ég ómenntaður og fáfróður sveitalubbinn.
Fréttamenn á Fréttablaðinu eru svo illa smitaðir af þágufallssýki að það hálfa væri nóg og ég held að bóluefni við þeirri sýki væri þörf uppfinning. Mér finnst sjáfsagt meiri kröfur á blaðamenn og prófarkalesara en á bloggara á gelgjuskeiði.
Sjálfsagt er ég að mála mig upp í horn og fæ að heyra það hjá vinunum framvegis ef ég geri einhver ,,íslensku mistök" hér eða annarstaðar en ég er alls ekki að halda því fram að ég tali og skrifi allta rétta íslensku. Setningafræði og greinamerki er eitthvað sem ég hef ekki hundsvit á enda ekki kennt í gaggó þegar ég var þar. En ef ég geri mistök finns mér sjálfsagt að bæta úr þeim og er til dæmis alveg hætt að skrifa ,,fluttningur" og skrifa nú bara um flutning.

Að svo mæltu ætlar Hafrún að bretta upp ermar og fara að vinna til að komast í frí.

1 ummæli:

Hafrún sagði...

Sko, sjáðu nú til.
Ef þú setur upp heimasíðu með íslenskumisþyrmingu ferð þú ferlega í taugarnar á mér. Ef þú misþyrmir íslenskunni munnlega svo ég heyri til skamma ég þig og ef þú tekur ekki leiðbeiningarnar til greina skamma ég þig svo mikið að þú getur ekki búið á sama landshluta af því ég fer svo í taugarnar á þér þegar ég er alltaf að skammast. Fer allt á sama veg, mínar taugar sleppa að mestu. nei ég er farin að bulla.
Dreymdi í nótt að ég var að rífast við Tollstjóraembættið og vakanaði í brjáluðu skapi. Féleg byrjun á sumarfríi það.
Þar að auki dreymdi mig tvær nöfnur mínar. Önnur dáin fyrir 20 árum en ég var nú samt í draumnum að kynna fyrir henni litla nöfnu hennar og barnabarn hennar og það var ökkladjúpt vatn á gólfinu í húsinu sem hún var í.
Svei þvi. Þetta boðar veikindi. Ég veit bara ekki hjá hverjum.