Ég sá fram á það eins og svo oft áður að þurfa að taka hraustlega vinnutörn í eins og einni vinnu til að komast í frí. Það átti að vinna allan laugardaginn og allan sunnudaginn en svo frétti ég af Papaballi á Players og kolféll í leti, drykkju og kæruleysi.
Dansaði meira föstudagskvöld til laugardagsmorguns en ég hef gert lengi, lengi. Bara held ég ekki síðan ég fór á eitthvað Húsó skrall og endaði í Þjóðleikhúskjallaranum. Ferlega langt síðan það var.
Hitti reyndar gamla vinnufélaga á Players og fékk að heyra frá fyrrum yfirmanni hvað hann hefði kviðið fyrir að fá mig í deildina fyrir langa löngu þegar ég færði mig með mitt starf milli deilda í ,,den". Hann lét það svo fylgja með (sem betur fer) að það hefði verið fínt að vinna með mér og ég ALDREI verið til vandræða og okkur hefði samið vel. Lofaði mér meira að segja meðmælum ef ég þyrfti á að halda.
Skyldi hann vera samsinnis þegar hann er edrú? Það væri réttast að láta reyna á það.
Heilsan var í þokkalegu lagi í dag, þökk sé áfyllingarþjónustu á Gvendarbrunnsvatni á salernisaðstöðu Players. Ég forðaðist að ónáða starfsfólkið á staðnum með beiðnum um vatnsglös, það var svo pirrað að ég læddist á tánum ef ég sá starfsmann tilsýndar.
Ég tók eftir því að hroki og pirringur einkenndi starfsfólkið á staðnum og fór að velta því fyrir mér hvort þetta væri svona allstaðar á sambærilegum stöðum.
Þó heilsan væri ekkert voðalega slæm í dag var ég frekar þreytt og mætti bara ekkert í vinnuna. Skilaði samt af mér gögnum sem ég var búin að lofa að koma inn fyrir sunnudag. Kíkti svo í bæinn en í þetta skiptið bara í kaffi og ætla að taka svo hraustlega á í vinnnuni á morgun að ég komist austur á land til að sinna sauðburði á mánudaginn.
Fyrst er nú samt MK hittingur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli