Mér er þungt fyrir brjósti þessa dagana.
Verður tíðhugsað til ungs drengs sem varð fyrir skelfilegri reynslu í vor og slapp lifandi en með með blæðandi sár bæði á sál og líkama.
Mig hryllir við þeirri staðreynd að fjölmiðlar og tímarit skuli halda áfram að misþyrma þessu barni sí og æ. Eins og þeir skeri með rakvélarblöðum hvað eftir annað í sárin sem rétt eru byrjuð að gróa.
Eyðileggi allt það sem gott fólk og góðir fagmenn hafa gert til að gera honum kleyft að komast af. Og um það hefur hans líf að miklu leyti snúist þessa mánuði, að komast af.
Mig hryllir við þeirri staðreynd að mikið af því fólki sem hugsaði með samúð og hlýhug til hans skuli styrkja pyntingarnar og kvalara hans með þvi að kaupa og lesa þá fjölmiðla sem nota hörmungar hans og hans nánustu sem markaðsvöru.
Ætli þeim sem keyptu og lásu hafi verið hugsað til hans og hvort hann hafi haft þreki til að fara á fætur í dag?
Hverjir eru kvalarar hans, þeir sem skrifa eða þeir sem kaupa?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli